Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11957/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Fangelsismálastofnunar á beiðni um reynslulausn. 

Í kjölfar eftirgrennslan umboðsmanns greindi Fangelsismálastofnun frá því að erindi viðkomandi yrði svarað við fyrsta tækifæri og því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 10. desember sl. vegna tafa á afgreiðslu Fangelsismálastofnunar á beiðni yðar frá 22. ágúst sl. um reynslulausn, sbr. 80. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga.

Í tilefni af kvörtuninni var Fangelsismálastofnun ritað bréf 15. desember sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari stofnunarinnar sem barst 9. janúar sl. kemur fram að þér hefðuð sótt um reynslulausn að liðnum helmingi refsitímans. Þar sem sá dagur væri 23. október 2023 hefði beiðni yðar ekki verið afgreidd enn sem komið er en í svari stofnunarinnar segir jafnframt að umsóknum sé svarað í tímaröð. Á hinn boginn sé ekkert því til fyrirstöðu að taka umsókn yðar fyrir og svara henni. Segir í svarinu að það verði gert við fyrsta tækifæri.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu málsins og nú liggja fyrir áform Fangelsismálastofnunar um að ljúka málinu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Standist áform stofnunarinnar ekki eða ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni rangsleitni að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.