Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11973/2022)

Kvartað var yfir því að ekki hefði verið birt ákvörðun um agaviðurlög né flutning á svonefndan öryggisgang á Litla-Hrauni.

Af svörum fangelsisins var ljóst að ekki var um að ræða ákvörðun um flutning á öryggisgang heldur almennan gang í fangelsinu. Engu að síður var þar um að ræða ákvörðun sem unnt er að kæra til dómsmálaráðuneytisins svo sem leiðbeint var um í rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar. Þar sem ekki varð ráðið af kvörtuninni að leitað hefði verið til dómsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru eða að úrlausn þess lægi fyrir voru ekki skilyrði til þess að taka kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. janúar 2023.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. desember sl. yfir því að yður hafi hvorki verið birt ákvörðun um agaviðurlög né flutning á svonefndan öryggisgang á Litla-Hrauni. 

Í tilefni af kvörtuninni var forstöðumanni fangelsisins ritað bréf 20. desember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort teknar hefðu verið ákvarðanir um agaviðurlög og/eða flutning á milli deilda í fangelsinu gagnvart yður og ef svo væri, hvaða ákvarðanir það hefðu verið. Þá var jafnframt óskað eftir gögnum, sem varpað gætu ljósi á umræddar ákvarðanir.

Svar forstöðumanns fangelsisins barst 10. janúar sl. en þar kemur fram að 13. desember sl. hafi þér verið fluttir á annan almennan gang innan fangelsisins en ekki öryggisgang. Í svarinu kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 5. mgr. 21. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, þar sem fjallað er um heimild forstöðumanns til að flytja fanga á milli klefa og deilda á grundvelli sérstakra aðstæðna eða í öryggisskyni. Fram kemur að lögmaður yðar hafi óskað rökstuðnings fyrir umræddri ákvörðun sem yður hafi verið afhentur 21. desember sl. Á það skal bent að í umræddum rökstuðningi var athygli yðar vakin á heimild til að kæra ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af svörum fangelsisins er ljóst að ekki var um að ræða ákvörðun um flutning á öryggisgang heldur almennan gang í fangelsinu. Engu að síður er þar um að ræða ákvörðun sem unnt er að kæra til dómsmálaráðuneytisins svo sem yður var leiðbeint um í rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtuninni að þér hafið leitað til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru eða að fyrirliggi úrlausn þess eru ekki skilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.