Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11979/2022)

Kvartað var yfir svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem hafnaði beiðni um að ráðuneytið endurskoðaði afstöðu sína til tiltekins máls. Þá laut kvörtunin einnig að tilgreindum stjórnarháttum stjórnenda RARIK ohf. 

Í ljósi atvika málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við afstöðu ráðuneytisins. Hvað RARIK snerti þá starfar það sem opinbert hlutafélag og að jafnaði á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins. Af þeim sökum og þar sem annað átti ekki við um kvörtunarefnið voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til frekari  meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. janúar.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. desember sl. yfir svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins frá 10. nóvember sl. þar sem hafnað var beiðni yðar um að ráðuneytið endurskoðaði afstöðu sína frá 25. september 2015 til tiltekins máls. Þá lýtur kvörtunin að tilgreindum stjórnarháttum stjórnenda RARIK ohf.

Upphaf máls þessa er að rekja til þess að með erindi 26. mars 2015 fóruð þér þess á leit við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að það hlutaðist til um sættir vegna ágreinings yðar og Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) annars vegar og RARIK ohf. hins vegar. Í svari ráðuneytisins 25. september 2015 kom m.a. fram sú afstaða þess að umræddur ágreiningur varðaði mögulegt brot á höfundalögum nr. 73/1972 en slík brot sæti ákæru eða eftir atvikum málshöfðun þess sem misgert er við, sbr. 59. gr. laganna. Það væri því ekki hlutverk ráðuneytisins að skera úr slíkum ágreiningi.

Í fyrrnefndu bréfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til yðar 10. nóvember sl. kemur fram að ráðuneytið telji ekki komin fram nein frekari gögn eða upplýsingar í beiðni yðar um endurskoðun, sem breyti fyrri niðurstöðu þess frá 25. september 2015. Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar til ráðuneytisins og svör þess til yðar tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ekki séu efni til að endurskoða fyrri afstöðu þess til umkvartana yðar. Hið sama á við um athugasemdir yðar um ætlað vanhæfi eins stjórnarmanns ÍSOR sem jafnframt mun hafa starfað í ráðuneytinu á tilteknu árabili.

Í tilefni þeirra athugasemda, sem þér færðuð í fram í kvörtuninni um stjórnarhætti RARIK ohf., skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið hans taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að starfssvið umboðsmanns taki einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

RARIK ohf. er opinbert hlutafélag sem komið var á fót með lögum nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, og starfar m.a. á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Félagið starfar því að jafnaði á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins. Af þeim sökum og þar sem annað á ekki við um kvörtunarefni yðar bresta lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar

Með vísan til framangreinds læt ég meðferð minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.