Börn.

(Mál nr. 11985/2022)

Kvartað var yfir framkvæmd sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu við aðfarargerð vegna umsjá sonar viðkomandi sem og ætluðum skorti á reglum um framkvæmd aðfarargerða sem snúa að börnum.  

Þar sem lög gera ráð fyrir að leysa skuli úr ágreiningi um aðför, þ. á m. um framkvæmd hennar, fyrir dómstólum féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um þann ágreining.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. janúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 16. desember sl., fyrir hönd A, sem beinist að framkvæmd sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu við aðfarargerð 2. júní sl. vegna umsjá sonar A sem og ætluðum skorti á reglum um framkvæmd aðfarargerða sem snúa að börnum.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns að meginstefnu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í c-lið 4. mgr. sömu greinar er starfssviðið takmarkað með þeim hætti að það tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla.

Í 15. kafla laga nr. 90/1989, um aðför, greinir að ágreiningur vegna framkvæmdar aðfarargerðar sem er lokið verði borinn undir héraðsdóm til úrlausnar. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laganna er málsaðilum heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar verður ágreiningur um aðfaragerðina eða ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar ekki lagður fyrir héraðsdómara þegar framangreindur frestur er liðinn, nema allir málsaðilar séu á það sáttir eða héraðs­dómari telji afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð eða til ágreinings komi um gerðina vegna kröfu gerðarbeiðanda um nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun á eign, sem tekin hefur verið fjárnámi.

Þar sem lög gera samkvæmt framangreindu ráð fyrir að leysa skuli úr ágreiningi um aðför, þ.á m. um framkvæmd hennar, fyrir dómstólum fellur það utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis að fjalla um slíkan ágreining, sbr. c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að framgöngu einstakra starfsmanna sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu umrætt sinn bendi ég yður á að ef þér teljið tilefni til getið þér, freistað þess að koma á framfæri athugasemdum yðar við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu. Með þeim hætti fær sýslumaður, eða annar stjórnandi sem hann kann að hafa framselt aga- og boðvald til, tækifæri til að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé fyrir hann til að bregðast við gagnvart starfsmanninum.

Hvað varðar athugasemdir yðar er lúta að skorti á reglum um framkvæmd aðfarargerða er varða börn bendi ég yður á að dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála er varða sýslumenn, samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar hafið þér þegar borið athugasemdir yðar undir ráðuneytið en ekki verður ráðið að yður hafi borist afstaða þess. Ef þér teljið yður ekki fá viðunandi úrlausn máls yðar hjá ráðuneytinu getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.