Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11990/2022)

Kvartað var yfir framkomu starfsmanns heilbrigðisstofnunar sem hefði brotið gegn þagnarskyldureglu.  

Þar sem málið hafði ekki verið lagt fyrir forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. janúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 2. janúar sl. yfir framkomu nafngreinds starfsmanns [heilbrigðisstofnunarinnar X] gagnvart yður sem þér teljið brjóta í bág við þagnarskyldureglur heilbrigðisstarfsmanna. [...].

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þar með talið æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við framangreint hefur þeirra starfsvenju verið fylgt hjá umboðsmanni að kvartanir, sem lúta að því hvernig einstakir starfsmenn í stjórnsýslunni rækja skyldur sínar, verði almennt að hafa verið bornar undir þann sem fer með agavald gagnvart viðkomandi starfs­manni, eftir atvikum forstjóra X, áður en þær geta komið til athugunar hjá umboðsmanni. Með þeim hætti fær forstjórinn tækifæri til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé fyrir hann til að bregðast við gagnvart starfsmanninum. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið umkvörtun yðar undir forstjóra X.

Ég tel því rétt að benda yður á að þér getið freistað þess að leita með erindi yðar til forstjórans. Ef, að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar, þér teljið yður enn beittan rangsleitni er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá endanlegri niðurstöðu, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. 

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.