Þinglýsingar.

(Mál nr. 11991/2022)

Kvartað var yfir sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna ætlaðra mistaka við gerð þinglýsingar kaupsamnings á eignarhluta í fjölbýlishúsi. Jafnframt var gerð krafa um að þinglýsingin yrði ógilt. 

Ekkert lá fyrir í málinu sem gat fallið undir starfssvið umboðsmanns og var viðkomandi bent á að leita til dómstóla þar sem ágreiningur væri uppi um úrlausnir þinglýsingarstjóra.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. janúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 2. janúar sl. sem beinist að embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og lýtur að mistökum sem þér teljið að hafi verið gerð við þinglýsingu kaupsamnings á eignarhluta, sem þér eruð ekki eigandi að, í fjölbýlishúsi þar sem þér eruð búsettir. Jafnframt gerið þér þá kröfu að þinglýsingin verði ógilt. Kvörtuninni fylgdi afrit af framangreindum þinglýstum kaupsamningi ásamt fylgiskjölum. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið óheimilt að þinglýsa kaupsamningum vegna fasteignarinnar fyrr en ný eignaskiptayfirlýsing hafi verið gerð.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns að meginstefnu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í c-lið 4. mgr. sömu greinar er starfssviðið takmarkað með þeim hætti að það tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla.

Samkvæmt 1. gr. þing­lýsinga­laga nr. 39/1978 eru sýslumenn þinglýsingarstjórar, hver í sínu umdæmi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna má bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti. Með ákvæðinu hefur löggjafinn mælt fyrir um að ágreiningur sem kann að koma upp vegna úrlausnar þinglýsingarstjóra skuli leystur fyrir dómi. Úrskurður héraðsdómara í slíku máli er kæranlegur til Landsréttar og unnt er að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar sem fela í sér lokaákvörðun um ágreinings­efnið, sbr. 5. og 6. mgr. sömu greinar.

Fyrir framangreindri skipan mála eru rök sem lúta að sérstöðu þinglýsinga sem stjórnvaldsathafna, auk þess sem um þinglýsingar gilda ítarlegar málsmeðferðarreglur í þinglýsingalögum sem gera um margt meiri kröfur til málsmeðferðar en lágmarksreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af ákvæði 3. gr. laga nr. 39/1978 verður ekki annað ráðið en að löggjafinn ætlist til þess að leitað sé úrskurðar dómstóla þegar ágreiningur er uppi um úrlausnir þinglýsingarstjóra. Rétt er þó að taka fram að ekki verður leyst úr efnisatvikum sem liggja að baki skjali á grundvelli þessarar málskotsleiðar, svo sem ágreiningi um eignarrétt, sbr. athugasemdir við 3. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þinglýsingarlögum nr. 39/1978.

Í ljósi alls framangreinds fæ ég ekki séð að í máli yðar liggi fyrir ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi af hálfu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem falla undir starfssvið mitt. Ég bendi yður hins vegar á ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978 þar sem fram kemur að manni, sem staðhæfir að færsla í fasteignabók sé efnislega röng og horfi sér til réttarspjalla, sé þá kostur að fá þinglýst kröfu sinni um leiðréttingu ef hann færir veigamikil rök fyrir staðhæfingu sinni að mati þinglýsingarstjóra eða setur tryggingu eftir því sem þinglýsingarstjóri kveður á um. Ef hann færir ekki sönnur fyrir staðhæfingu sinni innan frests sem þinglýsingarstjóri setur honum skal athugasemdin strikuð út í fasteignabókinni. Með þessari ábendingu hef ég þó ekki tekið neina afstöðu til þess hver ættu að vera viðbrögð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu við slíku erindi.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.