Lífeyrismál.

(Mál nr. 11995/2022)

Þess var farið á leit við umboðsmann að skoða lögmæti þess að lífeyrissjóðsgreiðslur yrðu skertar í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. 

Þar sem kvörtunin laut almennt að lífeyriskjörum viðkomandi og bráðabirgðaákvæði í lögum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. janúar 2023.

   

    

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. þar sem þér farið þess á leit við umboðsmann að hann skoði lögmæti þess að lífeyrissjóðsgreiðslur yðar verði skertar í samræmi við XII. bráðabirgðaákvæði laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem fært var í lögin með lögum nr. 127/2016.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Í því sambandi tek ég fram að starfssvið umboðsmanns tekur m.a. ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að hún lúti almennt að lífeyriskjörum yðar og téðu bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 1/1997. Með hliðsjón af því eru ekki uppfyllt skil­yrði að lögum til að ég fjalli frekar um erindi yðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.