Kvartað var yfir gjaldtöku Íslandspósts ohf. á sendingar- og umsýslugjaldi vegna póstsendinga erlendis frá ásamt almennum athugasemdum við álagningu slíkra gjalda á sendingar til landsins.
Þar sem málið hafði hvorki verið borið undir Byggðastofnun né úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. janúar 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar frá 5. janúar sl. sem lýtur að gjaldtöku Íslandspósts ohf. á sendingar- og umsýslugjaldi vegna póstsendinga erlendis frá. Nánar tiltekið gerið þér athugasemdir við þann kostnað sem yður var gert að greiða fyrir sendingu vöru sem þér pöntuðuð frá Belgíu. Jafnframt gerið þér almennt athugasemdir við álagningu framangreindra gjalda á sendingar sem koma til landsins.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Íslandspóstur ohf. er opinbert hlutafélag sem starfar m.a. á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili.
Í ljósi þess að kvörtun yðar beinist að gjaldtöku vil ég taka fram að samkvæmt 4. gr. a laga nr. 98/2019, um póstþjónustu, hefur Byggðastofnun eftirlit með starfsemi póstrekenda og því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, skilyrði eða ákvarðanir sem um starfsemina gilda. Í 16. og 17. gr. laganna er fjallað um viðskiptaskilmála og gjaldskrár. Í 1. mgr. 16. gr. laganna segir að alþjónustuveitendur líkt og Íslandspóstur skuli birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála og gjaldskrá sem um þjónustu þeirra gilda. Í 3. mgr. 17. gr. laganna segir að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal vegna erlendra póstsendinga, skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.
Í 3. mgr. 32. gr. laga nr. 98/2019 er kveðið á um að telji neytendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum, geti hlutaðeigandi beint kvörtun til Byggðastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Ákvarðanir stofnunarinnar eru svo kæranlegar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 42. gr. sömu laga.
Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindum lagagrundvelli er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Með vísan til þess sem að framan er rakið og þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að benda yður á þá leið að bera upp erindi yðar við Byggðastofnun sem, eins og fyrr segir, gegnir fyrrgreindu eftirlitshlutverki gagnvart póstrekendum, og eftir atvikum fyrrgreinda úrskurðarnefnd. Ég tek þó fram að með þeirri ábendingu minni hef ég enga efnislega afstöðu tekið til kvörtunar yðar að öðru leyti.
Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.