Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá sveitarfélagi. Það hefði vanrækt rannsóknarskyldu sína með því að boða viðkomandi ekki í viðtal og gerð athugasemd við að sá sem ráðinn var hefði ekki búið að tilhlýðilegri reynslu. Jafnframt var kvartað yfir að gögn hefðu ekki fengist afhent.
Í auglýsingu um starfið var krafist hæfni í mannlegum samskiptum og fyrir lá það mat sveitarfélagsins að þeirri hæfni væri svo ábótavant hjá viðkomandi að hann kæmi ekki til greina í starfið. Sú afstaða byggðist á vitneskju þeirra sem þekktu til fyrri starfa hans fyrir sveitarfélagið og samskipta í tengslum við það. Umboðsmaður taldi því ekki efni til að gera athugasemd við að þetta mat, byggt á fyrri starfsreynslu, hefði verið lagt til grundvallar við mat á hæfni í mannlegum samskiptum og hvort hún nægði til rækslu starfsins. Því væru ekki forsendur til athugasemda við þá ákvörðun sem tekin var í ráðningarferlinu að bjóða viðkomandi ekki viðtal. Hvað athugasemdir um að sá umsækjandi sem ráðinn var hefði ekki búið yfir reynslu af vinnu með fötluðum áréttaði umboðsmaður að ekki hefði verið gerð fortakslaus krafa um slíka reynslu þótt hún hefði verið talin æskileg samkvæmt auglýsingu. Því væri ekki tilefni til að fjalla frekar um þá athugasemd. Þá kom fram í svari sveitarfélagsins til umboðsmanns að öll gögn málsins hefðu verið afhent og því ekki tilefni til að fjalla frekar um það.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. janúar 2023.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 3. júní sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun X um ráðningu í auglýst starf við að sinna íbúum í sjálfstæðri búsetu og skammtímavistun. A var meðal þriggja umsækjenda um starfið. Í kvörtuninni er því haldið fram að X hafi vanrækt rannsóknarskyldu með því að boða hann ekki í viðtal vegna umsóknarinnar og gerð er athugasemd við að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi ekki búið yfir reynslu af .Jafnframt var kvartað yfir að A hafi ekki fengið afhent þau gögn málsins sem hann hafði óskað eftir.
Með bréfum til X 30. júní sl. og 21. nóvember sl. var óskað eftir afriti af gögnum málsins ásamt nánari upplýsingum og skýringum á þar tilgreindum atriðum. Svör og gögn bárust 29. september sl. og 12. desember sl. Með bréfi 13. desember sl. var yður sent afrit af síðastgreindu svarbréfi X og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 4. janúar sl. Athugasemdir bárust ekki.
II
1
Í auglýsingu um starfið voru tilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur:
Reynsla af starfi með fötluðu fólki mikill kostur.
Sveigjanleiki og hæfni í mannlegum samskiptum.
Frumkvæði, jákvæðni og sjálfstæð vinnubrögð.
Íslenskukunnátta.
Hreint sakavottorð í samræmi við lög og reglur.
Tiltekið var að þessar kröfur væru ekki í áhersluröð og að leitað væri að lausnamiðuðum, metnaðarfullum einstaklingi í starfið sem bæri hag þjónustunotenda fyrir brjósti. Einnig kom fram að með umsókn skyldi skila ferilskrá og kynningarbréfi þar sem gerð væri grein fyrir ástæðu umsóknar og rökum fyrir hæfni viðkomandi.
Meðal gagna málsins er bréf frá X til A 23. mars sl. þar sem gerð er grein fyrir þremur tímabundnum ráðningarsamningum sem gerðir höfðu verið við hann og giltu á tímabilinu 22. mars 2021 til 17. mars sl. svo og ástæðum þess að X taldi ekki grundvöll fyrir að bjóða honum frekari endurnýjun á ráðningarsambandinu. Í bréfinu er vísað til funda A og tveggja yfirmanna hans, annars vegar 11. nóvember 2021 og hins vegar 18. janúar sl., þar sem gerðar voru athugasemdir við framkomu hans og athafnir. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að þar sem ekki hafi orðið sýnilegur árangur af ítrekuðum ábendingum þessara yfirmanna hafi þeir ekki talið grundvöll fyrir því að bjóða endurnýjun á ráðningarsambandinu.
Í áðurnefndum bréfum X til umboðsmanns kemur fram að einn umsækjendanna hafi dregið umsókn sína til baka. Þar kemur einnig fram að A hafi ekki þótt koma til greina í starfið, fyrst og fremst vegna erfiðra samskipta, og var um það vísað til bréfsins frá 23. mars 2022 sem fyrr er getið. Eftir stóð þá aðeins einn umsækjandi sem uppfyllti kröfur að mati sveitarfélagsins og var hann ráðinn í starfið.
2
Vegna þess sem fram kemur í kvörtun yðar um að viðtal við A hafi verið nauðsynlegt í ráðningarferlinu skal minnt á að slíkt viðtal er í eðli sínu ætlað til þess að afla viðbótarupplýsinga umfram það sem kemur fram í umsókn og til þess að meta nánar atriði sem talin eru geta skipt máli við val milli þeirra sem komið hafa best út eftir yfirferð umsókna. Þannig hefur ekki verið talið leiða af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvöldum sé ávallt skylt að gefa hæfum umsækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sjálfum sér í starfsviðtölum eða afla á annan hátt frekari upplýsinga um starfshæfni. Þörf á viðtali eða frekari upplýsingum, t.d. umsögnum meðmælenda, til að uppfylla kröfur rannsóknarreglunnar ræðst þar af leiðandi af því hvaða upplýsinga er talið nauðsynlegt að afla til að málið sé nægjanlega upplýst með tilliti til þeirra sjónarmiða sem veitingarvaldshafinn hefur ákveðið að byggja á við mat sitt á umsóknum.
Fyrir liggur að í auglýsingu um starfið var krafist hæfni í mannlegum samskiptum svo og að það var mat X að þeirri hæfni væri svo ábótavant hjá A að hann kæmi ekki til greina í starfið. Sú afstaða sveitarfélagsins byggðist á vitneskju þeirra sem þekktu til fyrri starfa hans fyrir sveitarfélagið og samskipta í tengslum við það. Ég tel ekki efni til að gera athugasemd við að þetta mat, byggt á fyrri starfsreynslu, hafi verið lagt til grundvallar við mat á hæfni A í mannlegum samskiptum og hvort hún væri nægði til rækslu starfsins.
Af framangreindu leiðir að ég tel mig ekki hafa forsendur til athugasemda við þá ákvörðun sem tekin var í ráðningarferlinu að bjóða A ekki viðtal.
Vegna athugasemdar yðar um að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi ekki búið yfir reynslu af vinnu með fötluðum skal áréttað að ekki var gerð fortakslaus krafa um slíka reynslu þótt hún hafi verið talin æskileg samkvæmt auglýsingu. Ég tel því ekki tilefni til að fjalla frekar um athugasemd yðar að þessu leyti.
3
Í bréfi X til umboðsmanns 12. desember sl. kemur fram að A hafi þegar bréfið er ritað fengið afhent afhent öll gögn ráðningarmálsins. Í því ljósi tel ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um þann hluta kvörtunarinnar.
III
Með vísan til þess sem að framan greinir og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.