Fullnustugerðir og skuldaskil.

(Mál nr. 11997/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við aðfararbeiðni sem félag lagði fram og gerðar athugasemdir við að reglur skorti um þau tímamörk sem sýslumannsembætti hafi til að bregðast við beiðni um aðfarargerð. 

Þar sem lög gera ráð fyrir að dómstólar leysi úr ágreiningi um aðfarargerð féll það utan starfssvið umboðsmanns að fjalla um það. Þar sem kvörtunin laut helst að starfsháttum sýslumanna við framkvæmd aðfarargerða benti umboðsmaður viðkomandi á að freista þess að leita með athugasemdir sínar til dómsmálaráðherra.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. yfir málsmeðferð sýslumannsins á höfuðborgarborgarsvæðinu í tengslum við aðfararbeiðni sem X, sem þér eruð í fyrirsvari fyrir, lagði fram hjá sýslumanni 12. desember sl. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að reglur skorti um þau tímamörk sem sýslumannsembætti hafi til að bregðast við beiðni um aðfarargerð.

Rétt er í upphafi að taka fram að í 14. kafla laga nr. 90/1989, um aðför, eru reglur um úrlausn ágreinings sem rís við framkvæmd aðfarargerðar eða um endurupptöku hennar, og í 15. kafla fjallað um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laganna er málsaðilum heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því að gerðinni var lokið. Í 2. mgr. greinarinnar kemur m.a. fram að ágreiningur um aðfarargerð eða ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar verður ekki lagður fyrir héraðsdómara að liðnum fresti samkvæmt 1. mgr., nema allir málsaðilar séu á það sáttir eða héraðsdómari telji afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt b- og c-liðum 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns hvorki til starfa dómstóla né ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málsskoti til dómstóla. Af þessum sökum falla kvartanir sem lúta að ágreiningi í tengslum við aðfarargerðir og framkvæmd þeirra utan starfssviðs umboðsmanns og eru því að jafnaði ekki skilyrði að lögum fyrir umboðsmann að fjalla um slík mál.

Þar sem ég ræð af kvörtun yðar að hún lúti helst að starfsháttum sýslumanna við framkvæmd aðfarargerða tel ég rétt að benda yður á að málefni sýslumanna heyra samkvæmt lokamálslið 1. gr. laga nr. 50/2014, um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, undir dómsmálaráðherra sem fer með yfirstjórn og eftirlit með störfum sýslumanna. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Er framangreint lagaákvæði byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega séu rangar áður en leitað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hef ég fylgt þeirri starfsvenju að áður en ég tek mál til meðferðar sé rétt að æðra stjórnvald sem fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tæki­færi til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort ástæða er til að beita þeim heimildum sínum. Með hliðsjón af framanröktu og 3. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis tel ég rétt að þér freistið þess fyrsta kastið að leita með athugasemdir yðar, að því marki sem þær lúta að téðum starfsháttum sýslumanns, til dómsmálaráðherra.

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég þar með athugun minni á málinu.