Húsnæðismál.

(Mál nr. 12004/2023)

Kvartað var yfir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og innviðaráðuneytinu vegna framkvæmdar laga um breytingu á húsaleigulögum. Virtist kvörtunin lúta að áskilnaði um rafræna skráningu húsaleigusamninga hjá þriðja aðila. 

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að hún lyti að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beindist sérstaklega að viðkomandi eða varðaði beinlínis hagsmuni hans umfram aðra. Því voru ekki lagaskilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar. Umboðsmaður benti þó á að freista mætti þess að bera athugasemdirnar upp við innviðaráðuneytið

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 10. janúar sl. sem þér beinið að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og innviðaráðuneytinu. Af kvörtun yðar verður helst ráðið að hún lúti að framkvæmd laga nr. 121/2022, um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, sem tóku gildi nýverið. Virðist kvörtun yðar nánar tiltekið lúta að áskilnaði sem gerður sé um rafræna skráningu húsaleigusamninga hjá þriðja aðila.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur allt að einu leitt til þess að mál sé tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda þó ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist sérstaklega að yður eða varði beinlínis hagsmuni yðar umfram aðra. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Ég tel þó rétt að benda yður á að þér getið freistað þess að bera athugasemdir yðar varðandi starfshætti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar undir innviðaráðuneytið sem fer með yfirstjórn stofnunarinnar og málefni er varða húsaleigu, sbr. e- og r-lið 5. töluliðar 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.