Heilbrigðismál.

(Mál nr. 12005/2023)

Kvartað var yfir afstöðu landlæknis til kvörtunar. 

Þar sem afgreiðsla landlæknis á málinu hafði ekki verið kærð til heilbrigðisráðuneytisins voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. janúar sl. sem ég ræð að lúti helst að afstöðu embættis landlæknis 10. janúar sl. í tilefni af kvörtun yðar til þess.

Af kvörtun yðar og þeim gögnum sem henni fylgdu má ráða að þér hafið lagt fram kvörtun til landlæknis 22. mars sl. með vísan til 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, vegna framkomu tiltekins læknis gagnvart yður. Eftir nánari skoðun hafi landlæknir hins vegar talið eðlilegra að líta á erindi yðar sem athugasemdir vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun, eða öllu heldur starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Að fengnum upplýsingum frá viðkomandi lækni hafi landlæknir talið að málið veitti ekki tilefni til frekari málsmeðferðar.

Í II. kafla laga nr. 41/2007 er fjallað um eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðis­þjónustu sem og ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanns við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í 3. til 5. mgr. 12. gr. eru nánari ákvæði um meðferð landlæknis á kvörtunum samkvæmt þeirri grein og samkvæmt 6. mgr. 12. gr. er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til heilbrigðisráðherra.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindum lagagrundvelli er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til um­boðs­manns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið kært afgreiðslu landlæknis á máli yðar til heilbrigðisráðuneytisins í samræmi við framangreint eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.