Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11961/2022)

Kvartað var yfir synjun Bílastæðasjóðs á endurgreiðslu gjalds fyrir afnot af bílastæðahúsi Ráðhúss Reykjavíkur.

Í kjölfar eftirgrennslan umboðsmanns ákvað Reykjavíkurborg að hætta gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða í bílastæðahúsum borgarinnar og endurgreiða viðkomandi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. mars 2023. 

 

   

Vísað er til kvörtunar yðar 8. desember 2022, fyrir hönd A, yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs 19. október sama árs þess efnis að synja A um endurgreiðslu gjalds sem hann greiddi fyrir afnot af bílastæðahúsi Ráðhúss Reykjavíkur 15. september sama árs.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjavíkurborg ritað bréf 22. desember 2022 þar sem óskað var eftir að veittar yrðu tilteknar upplýsingar og skýringar. Nú hafa svör Reykjavíkurborgar borist með bréfi 15. mars sl., sem fylgir hjálagt, þar sem greinir að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að láta af gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða í bílastæðahúsum borgarinnar og A hafi verið tilkynnt um að honum verði endurgreitt umrætt gjald að fengnum bankaupplýsingum hans.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á máli yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.