Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði.

(Mál nr. 11667/2022)

Kvartað var yfir úrskurði menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að leggja á stjórnvaldssekt vegna óskráðrar heimagistingar.

Af orðalagi í þágildandi lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald varð ekki dregin önnur ályktun en að sýslumanni, og eftir atvikum ráðuneytinu,  bæri við framkvæmd tiltekins ákvæðis að leggja heildstætt og einstaklingsbundið mat á hvað teldist hæfileg sekt hverju sinni með hliðsjón af alvarleika brots og yrði því að játa stjórnvöldunum tölvuvert svigrúm að því leyti. Ekki væru forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins. Í ljósi viðbragða þess og skýringa á því hve málið dróst á langinn taldi umboðsmaður ekki heldur tilefni til að beina tilmælum til þess þar að lútandi. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. janúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. apríl 2022, f.h. A og B, vegna úrskurðar menningar- og viðskiptaráðuneytisins 15. febrúar 2022. Með úrskurðinum var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 26. júní 2019, um að leggja stjórnvaldssekt á umbjóðendur yðar vegna óskráðrar heimagistingar í íbúð að [...] í Reykjavík, staðfest. Í kvörtun yðar gerið þér einkum athugasemdir við fjárhæð sektarinnar og teljið framangreind stjórnvöld hafa brotið gegn 9., 10., 11. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

Samkvæmt kvörtun yðar og gögnum málsins virðist óumdeilt að umbjóðendur yðar hafi haft með höndum gististarfsemi að [...] í Reykjavík án þess að hún hafi verið skráð í samræmi við 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Af því tilefni upplýsti sýslumaður umbjóðendur yðar með bréfi 21. mars 2019 um að fyrirhugað væri að leggja á hvort þeirra um sig stjórnvaldssekt að fjárhæð 450.000 kr. á grundvelli þágildandi 22. gr. a. laga nr. 85/2007. Með ákvörðun sýslumanns 26. júní 2019 var sektarfjárhæð ákveðin lægri en fyrirhugað var eða 400.000 kr. einkum með vísan til samstarfsvilja umbjóðenda yðar og þess að þau hefðu komið starfsemi sinni í lögmætt horf. Af téðri ákvörðun sýslumanns verður ráðið að við mat á alvarleika brots, sbr. 3. mgr. téðrar 22. gr. a laga nr. 85/2007, hafi sýslumaður litið til fjölda sýnilegra gistinátta án skráningar og ætlaðra tekna fyrir hvert brot. Lagt hafi verið til grundvallar að umbjóðendur yðar hefðu leigt út umrædda fasteign í skammtímaleigu í a.m.k. 66 gistinætur og verð fyrir hverja selda gistinótt hafi verið u.þ.b. 18.000 kr.

Með úrskurði menningar- og viðskiptaráðuneytisins var téð stjórnvaldssekt lækkuð í 350. 000 kr. fyrir hvorn umbjóðanda yðar um sig, m.a. með vísan til þess að ráðuneytið teldi sýslumann hafa átt að veita því meira vægi við ákvörðunartökuna að umbjóðendur yðar hefðu komið starfsemi sinni í lögmætt horf. Þá féllst ráðuneytið á sjónarmið umbjóðenda yðar um að líta á starfsemi þeirra sem eitt brot í skilningi 3. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007. Í úrskurðinum kemur fram að við mat á hæfilegri sektarfjárhæð hafi verið litið til atvika málsins, umfangs starfseminnar sem og ákvarðana í sambærilegum málum. Það hafi einnig verið mat ráðuneytisins að gætt hafi verið að jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Í þágildandi 22. gr. a laga nr. 85/2007 eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 83/2019 var fjallað um stjórnvaldssektir. Þar sagði í 1. mgr. að sýslumaður gæti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem ræki heimagistingu án skráningar samkvæmt 13. gr. laganna, stundaði útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölulið 4. gr. laga um virðisaukaskatt. Í 3. mgr. kom fram að stjórnvaldssektir gætu numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvert brot, væru aðfararhæfar og skyldu renna í ríkissjóð. Þá sagði að við ákvörðun sekta skyldi tekið tillit til alvarleika brots.

Af orðalagi téðrar 3. mgr. 22. gr. a laga nr. 85/2007 verður ekki dregin önnur ályktun en að sýslumanni, og eftir atvikum ráðuneytinu, beri við framkvæmd ákvæðisins að leggja heildstætt og einstaklingsbundið mat á hvað teljist hæfileg sekt hverju sinni með hliðsjón af alvarleika brots og verður að játa umræddum stjórnvöldum töluvert svigrúm að því leyti. Við þessar ákvarðanir eru stjórnvöld þó sem endranær bundin við reglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og efnislega niðurstöðu. Þurfa þessar ákvarðanir því ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og vera í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hefur athugun mín í tilefni af kvörtun yðar beinst að því hvort þessum kröfum hafi verið fullnægt í máli yðar.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins sem og gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins um fjárhæð stjórnvaldssekta umbjóðenda yðar. Í því sambandi tek ég fram að ég fæ ekki annað ráðið en að þau sjónarmið sem lágu til grundvallar mati ráðuneytisins hafi verið málefnaleg og í samræmi við lög. Þá tel ég, eftir að hafa kynnt mér úrskurðarframkvæmd ráðuneytisins í sambærilegum málum og gögn málsins að öðru leyti, ekki heldur tilefni til að fjalla frekar um athugasemdir yðar er lúta að því að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin við meðferð málsins.

Hvað snertir athugsemdir umbjóðenda yðar við rökstuðning ráðuneytisins tek ég fram að ég fæ ekki betur séð en að í honum sé vísað til þeirra réttarreglna sem úrskurðurinn byggist á auk þess sem þar er gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nánar tiltekið er þar vísað til þeirra sjónarmiða sem lágu að baki mati á alvarleika brots umbjóðenda yðar, auk þess sem reifuð eru sjónarmið sem lágu til grundvallar lækkun sekta. Ég tel því ekki tilefni til að gera athugasemdir við rökstuðning ráðuneytisins.

Viðvíkjandi athugasemdum yðar við málshraða ráðuneytisins er ljóst að afgreiðsla málsins hafði dregist fram úr hófi líkt og ráðuneytið gengst raunar við í niðurlagi úrskurðarins og skýringum þess til umboðsmanns 5. september 2022. Þar eru umbjóðendur yðar jafnframt beðnir afsökunar á þeim töfum sem urðu við meðferð málsins. Í ljósi viðbragða ráðuneytisins og þess að það hefur gengist við því að málsmeðferðin hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við málshraðareglu tel ég ekki tilefni til að beina tilmælum að þessu leyti til ráðuneytisins.

Að öðru leyti en að framan greinir tel ég athugasemdir í kvörtun yðar ekki gefa tilefni til sérstakrar umfjöllunar. Lýk ég hér með meðferð minni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.