Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11911/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá Akureyrarbæ þar sem meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu, réttmætisreglu né lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. 

Ekki varð annað séð en fram hefði farið heildstætt mat og samanburður umsækjenda á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem gefin hefðu verið til kynna í auglýsingu um starfið, sér í lagi þeirra hæfniskrafna er lutu að stjórnunar- og leiðtogafærni. Byggt hefði verið á málefnalegum sjónarmiðum og áherslum og að virtu því svigrúmi sem stjórnvöld hefðu í ráðningarmálum væru ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu bæjarins um hver hefði verið hæfastur eða ákvörðun um að ráða þann umsækjanda. Þá yrði ekki annað séð en bæjarstjóra hefði með lögmætum hætti verið falið að ráða í starfið og því ekki ástæða til að aðhafast frekar vegna þess.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. janúar 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 7. nóvember sl. fyrir hönd A yfir ráðningu [...] hjá Akureyrarbæ. Lýtur kvörtunin að því að því að meðferð ráðningarmálsins hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu, réttmætisreglu og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í tilefni kvörtunarinnar var Akureyrarbæ ritað bréf 21. nóvember sl. þar sem óskað var eftir gögnum og upplýsingum. Svör sveitarfélagsins ásamt umbeðnum gögnum bárust 19. desember sl.

  

II

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Að íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðunina ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um annað í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða sjónarmið stjórnvalds allt að einu að vera málefnaleg, svo sem um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem talin eru máli skipta um starfshæfni. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi verða þau að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á væntanlegri frammistöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar. Hafi stjórnvald aflað fullnægjandi upplýsinga um það hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar, svo og sýnt fram á að slíkur heildstæður samanburður hafi farið fram, hefur hins vegar verið litið svo á, í framkvæmd umboðsmanns sem og dómstóla, að það njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi teljist hæfastur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í því sambandi legg ég á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvern á að ráða í opinbert starf. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í það starf sem hér um ræðir heldur að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið lögmæt.

Gögn málsins bera með sér að rannsókn sveitarfélagsins og mat á umsækjendum hafi farið fram í nokkrum skrefum þar sem umsækjendahópurinn var smám saman þrengdur, fyrst þegar 12 umsækjendum var boðið að skila inn myndbandsupptöku og síðar þegar tekin var ákvörðun um að bjóða sjö umsækjendum til viðtals.  Eftir yfirferð á gögnum málsins og að virtum upplýsingum í áðurnefndri greinargerð Akureyrarbæjar verður ekki annað séð en að fram hafi farið heildstætt mat og samanburður umsækjenda á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem gefin voru til kynna í auglýsingu um starfið, sér í lagi þeirra hæfniskrafna er lutu að stjórnunar- og leiðtogafærni. Þá verður ekki annað ráðið en að samanburðurinn hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og áherslum m.t.t. þeirra verkefna og ábyrgðar sem bundin eru umræddu sviðsstjórastarfi. Að virtu svigrúmi stjórnvalda í ráðningarmálum tel ég mig því ekki hafa forsendur til athugasemda við niðurstöðu Akureyrarbæjar um hvaða umsækjandi hafi verið hæfastur eða ákvörðun um að ráða hann.

   

III

Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið að sveitarstjórnin hefði átt að annast ráðninguna þar sem um ráðningu í æðstu stöðu sveitarfélagsins hafi verið að ræða. Af því tilefni skal tekið fram að í 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að sveitarstjórn ráði starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og veiti þeim lausn frá starfi. Um ráðningu annarra starfsmanna annast framkvæmdastjóri, enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laga nr. 138/2011 kemur m.a. fram að með æðstu stjórnendum sé aðeins átt við þá starfsmenn sveitarfélagsins sem raðist í æðstu stöður stjórnkerfisins og almennt mundi í hverju sveitarfélagi aðeins vera um að ræða framkvæmdastjórana og svo eftir atvikum fáa aðra lykilstjórnendur. Það sé hins vegar misjafnt eftir stærð og stjórnskipulagi sveitarfélaganna hvaða aðilar teljast til æðstu stjórnenda (sjá þskj. 1250 á 139. löggj.þ. 2010-2011, bls. 88). Af framangreindu má ljóst vera að almennt er það undir ákvörðun hvers sveitarfélags komið hvaða störf það felli undir æðstu stjórnunarstöður í skilningi sveitarstjórnarlaga.

Í 51. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar er fjallað um ráðningu í æðstu stjórnunarstöður bæjarins. Þar segir að bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar og að höfðu samráði við viðkomandi fagráð, ráði sviðsstjóra sem heyra beint undir hann í skipuriti svo og framkvæmdastjóra fyrirtækja með sjálfstæðan fjárhag sem eru í eigu bæjarsjóðs og veiti þeim lausn frá starfi.

Samkvæmt framangreindu verður ekki annað séð en að bæjarstjóra Akureyrarbæjar hafi með lögmætum hætti verið falið að ráða sviðsstjóra í umboði bæjarstjórnarinnar og fara þannig með áðurnefnt ráðningarvald hennar sem mælt er fyrir um í 56. gr. laga nr. 138/2011. Að þessu virtu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar tilefni af þessu tiltekna atriði kvörtunarinnar.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.