Útlendingar.

(Mál nr. 11966/2022)

Kvartað var yfir  málsmeðferð Útlendingastofnunar í kjölfar tilkynningar hennar um að til skoðunar væri hvort lagaskilyrði væru til að vísa viðkomandi úr landi. 

Þar sem málið hafði ekki verið kært til kærunefndar útlendingamála og hún fjallað um það voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki það til meðferðar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. janúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A 14. desember sl. yfir málsmeðferð útlendingastofnunar í máli hans. Nánar tiltekið lúta athugasemdirnar að málsmeðferð stofnunarinnar í kjölfar þess að A var með bréfi 20. maí sl. kynnt að stofnunin hefði til skoðunar hvort uppfyllt væru lagaskilyrði til að vísa honum úr landi.

Á meðal þeirra gagna sem þér og A senduð umboðsmanni í kjölfar beiðna þar að lútandi eru annars vegar afrit af ofangreindu bréfi útlendingastofnunar 20. maí sl. til A og ákvörðun útlendinga­stofnunar 17. sama mánaðar þar sem tilkynnt er ákvörðun um að vísa honum úr landi á grundvelli 1. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, auk þess sem honum var bönnuð endurkoma til landsins næstu 14 árin, sbr. 1. mgr. 96. gr. sömu laga. Í ákvörðunarorðum stofnunarinnar er A leiðbeint um að ákvörðunin sé kæranleg til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá birtingu hennar. Í tölvubréfi A til umboðsmanns koma fram þau áform hans að kæra umrædda ákvörðun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þar með talið æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af ofangreindu tölvubréfi A er ljóst að hann hyggst kæra ákvörðun útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála í samræmi við 7. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga.

Brestur af þessum sökum lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu og lýk ég því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef A telur sig enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu kærunefndar útlendingamála, getur hann eða eftir atvikum þér fyrir hans hönd leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.