Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11984/2022)

Kvartað var yfir viðbrögðum innviðaráðuneytisins við erindi. 

Eftir að hafa kynnt sér svör ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við frávísun þess á stjórnsýslukæru viðkomandi. Ekki yrði betur séð en að sú ákvörðun sem kærð var hefði varðað innri málefni sveitarfélagsins og því ekki falið í sér úrlausn um rétt eða skyldu manna í merkingu stjórnsýslulaga og gat því ekki sætt kæru til ráðuneytisins. Þá yrði ekki annað ráðið en athugasemdir við stjórnsýslu sveitarfélagsins væru enn til meðferðar hjá ráðuneytinu og því ekki uppfyllt lagaskilyrði, að svo stöddu, til að fjalla um kvörtunina að því marki sem hún sneri að viðbrögðum innviðaráðuneytisins og þeirri stjórnsýslu sveitarfélagsins sem þar var til umfjöllunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. janúar.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 26. desember sl. sem lýtur að viðbrögðum innviðaráðuneytisins við erindi yðar frá 23. desember 2021 sem bar yfirskriftina „Stjórnsýslukæra og jafnframt alvarleg ábending um mikilvægt álitamál“. Af kvörtuninni verður ráðið að erindið hafi lotið að þeirri afstöðu X að sveitarfélaginu beri ekki skylda til að hafa starfandi endurskoðunarnefnd, sbr. bókun sveitarstjórnar 9. desember 2021, en þér eruð fulltrúi í bæjarstjórn sveitarfélagsins. Þá gerið þér einnig athugasemdir við drátt sem orðið hafi á því að ráðuneytið upplýsi yður um afgreiðslu málsins. Jafnframt beinist kvörtun yðar að efni umsagnar bæjarlögmanns X 6. desember 2021 sem lögð var fram á umræddum fundi.

Um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er fjallað í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitar­félög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Að því leyti sem ekki er um að ræða ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti innviða­ráðu­neytisins samkvæmt 109. gr. ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags á grundvelli frumkvæðiseftirlits þess sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 112. gr. laganna.

Í svari ráðuneytisins til yðar 22. mars 2022 kom fram að umrædd ákvörðun sveitarstjórnar um skyldu sveitarfélags til að starfrækja endurskoðunarnefnd teldist ekki stjórnvaldsákvörðun  og því væri ekki unnt að taka málið til úrskurðar á grundvelli 111. gr. laga nr. 138/2011. Var kæru yðar því vísað frá ráðuneytinu. Jafnframt kom fram að erindi yðar yrði tekið til skoðunar af hálfu ráðuneytisins sem ábending eða kvörtun og lagt yrði mat á hvort efni þess gæti orðið tilefni til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. laganna. Þá sagði í bréfinu að þeim sem kemur á framfæri ábendingu eða kvörtun séu sendar upplýsingar um afstöðu ráðuneytisins í málinu þegar hún liggi fyrir en ólíklegt sé að niðurstaða þess liggi fyrir á næstunni sökum þess fjölda ábendinga og kvartana vegna stjórnsýslu sveitarfélaga sem ráðuneytið hefði til skoðunar.

Eftir að hafa kynnt mér svör ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við frávísun ráðuneytisins á stjórnsýslukæru yðar. Hef ég þá í huga að ég fæ ekki betur séð en að sú ákvörðun sem þér kærðuð hafi varðað innri málefni sveitarfélagsins og því ekki falið í sér úrlausn um rétt eða skyldu manna í merkingu 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Verður þá að hafa í huga að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga er þetta skilyrði þess að mál geti sætt kæru til innviðaráðuneytisins.

Þá tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Þar sem ekki verður annað ráðið en að athugasemdir yðar við stjórnsýslu sveitarfélagsins séu enn til meðferðar hjá ráðuneytinu eru ekki uppfyllt lagaskilyrði, að svo stöddu, til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að því marki sem hún snýr að viðbrögðum innviðaráðuneytisins og þeirri stjórnsýslu sveitarfélagsins sem þar er til umfjöllunar.

Hvað varðar athugasemdir yðar er lúta að drætti ráðuneytisins á að afgreiða mál yðar og því að það hafi ekki hlutast til um að upplýsa yðar um framvindu þess skal þess getið að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Af hálfu umboðsmanns hefur almennt verið litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun vegna þess að dráttur hafi orðið á því að stjórnvald svaraði erindi frá honum leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun. Ljóst er að þér beinduð erindi til ráðuneytisins 30. mars 2022 eða rúmri viku eftir að yður barst téð svar ráðuneytisins þar sem m.a. kom fram að búast mætti við að afgreiðsla málsins tæki nokkurn tíma. Í ljósi þess og þar sem ég fæ ekki séð að þér hafið á seinni stigum beint ítrekun til ráðuneytisins tel ég að svo stöddu ekki tilefni til að aðhafast í tilefni af þessum hluta kvörtunar yðar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Ég tek fram að þér getið, að fengnum viðbrögðum ráðuneytisins, leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Í samræmi við framangreint getið þér jafnframt leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið óhóflegan drátt verða á svörum ráðuneytisins og þá að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu á erindinu.