Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11987/2022)

Kvartað var innheimtuaðferðum Skattsins vegna vangoldinna opinberra gjalda fyrrum eiginmanns.  

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar, samkvæmt beinum lagafyrirmælum, er ætlast til að leitað sé leiðréttingar með málskoti til dómstóla og því ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. janúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. desember sl., f.h. A, sem ég ræð að lúti að innheimtuaðferðum Skattsins gagnvart A vegna vangoldinna opinberra gjalda fyrrum eiginmanns hennar vegna gjaldáranna 2011-2017. Nánar tiltekið lúta athugasemdir yðar að því að þér teljið reglur nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda, eigi að leiða til þess að innheimta beri elstu skuldir eiginmannsins, þ.e. vegna gjaldáranna 2011-2012, hjá honum sjálfum en ekki umbjóðanda yðar en fyrir liggur að þau voru í hjúskap á því tímabili. Því beri Skattinum að láta af innheimtuaðgerðum á hendur A og enn fremur fella niður kyrrsetningargerð þar sem eignir A voru kyrrsettar. 

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar fæ ég ekki betur séð en að hún lúti að sömu atvikum og fyrri kvörtun A sem hlaut málsnúmerið 11739/2022 í málaskrá embættisins enda fæ ég ekki betur séð en að hún lúti að lagaafstöðu stjórnvalda, m.a. til gildissviðs téðra reglna nr. 767/2016, sem byggt var á við úrlausn ágreinings um gildi téðrar kyrrsetningargerðar. Því máli var lokið bréfi 25. ágúst sl. með vísan til þess það félli ekki undir starfssvið umboðsmanns, eins og það er afmarkað í c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að fjalla um gildi kyrrsetningar þar sem í lögum væri gert ráð fyrir að leggja megi fyrir héraðsdóm gildi kyrrsetningar. Í ljósi þessa tel ég ekki ástæðu til að endurskoða fyrri niðurstöðu mína að þessu leyti.

Ekki verður fyllilega ráðið af kvörtun yðar hvort stjórnvöld hafi hafið eiginlega innheimtu, eftir atvikum á grundvelli laga nr. 90/1989, um aðför. Í því samhengi tel ég þó ástæðu til að halda til haga að ágreiningur um aðför er sama marki brenndur og ágreiningur um kyrrsetningu að því leyti að samkvæmt lögum nr. 90/1989 er gert ráð fyrir að slíkum ágreiningi sé beint til dómstóla, sbr. t.d. 15. kafla laga nr. 90/1989 um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar. Af þessu leiðir að slíkur ágreiningur, þar á meðal málsástæður er lúta að framkvæmd innheimtu gagnvart gerðarþola, fellur utan starfssviðs umboðsmanns eins og það er afmarkað í c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Ég ræð enn fremur af kvörtun yðar að með henni sé þess farið á leit við umboðsmann að hann taki téðar innheimtuaðferðir Skattsins til athugunar á grundvelli þeirrar frumkvæðisheimildar sem honum er fengin í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af því tilefni tek ég fram að þegar umboðsmanni berast ábendingar á borð við þær, sem þér færið fram í kvörtun yðar, eru þær yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til sérstakrar athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna er tengjast umræddu málefni, svo og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefni tekið til athugunar er viðkomandi að jafnaði ekki upplýstur sérstaklega um það heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds læt ég meðferð minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.