Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11992/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð Fangelsismálastofnunar í tengslum við boð um að flytjast úr lokuðu fangelsi í opið. Ef viðkomandi féllist á flutninginn yrði hann nauðbeygður til að breyta mataræði sínu í samræmi við verklag í opna fangelsinu. Þetta gæti ógnað heilsunni og þannig væri möguleiki til að afplána í opnu fangelsi takmarkaður.

Ekki varð ráðið að athugasemdunum hefði verið komið formlega á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og viðbrögð fengin við þeim. Að svo stöddu voru ekki skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar er barst umboðsmanni 27. desember sl. yfir málsmeðferð fangelsismálastofnunar í tengslum við boð stofnunarinnar til yðar um að flytjast úr lokuðu fangelsi í opið fangelsi. Af kvörtuninni verður ráðið að athugasemdir yðar lúti að því að ef þér fallist á flutninginn séuð þér í raun nauðbeygðir til að gera breytingar á mataræði yðar í samræmi við verklag í opna fangelsinu. Teljið þér þessar breytingar ógna heilsu yðar og þannig sé möguleiki yðar til að afplána í opnu fangelsi takmarkaður.

Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðs­maður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra. Kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn og að öðru leyti verður ekki fyllilega ráðið af henni að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til að mynda til forstöðumanns fangelsisins eða Fangelsismálastofnunar, sem samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, hefur umsjón með rekstri fangelsa. Þá bendi ég yður á að samkvæmt 4. gr. sömu laga fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn fangelsis­mála. Þar sem þér getið freistað þess að leita til framangreindra stjórnvalda með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið rætt athugasemdir yðar og áhyggjur við starfsmenn fangelsisins. Kvörtuninni fylgdu hins vegar engin gögn er varpað geta ljósi á téð samskipti. Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðs­maður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra. Af kvörtun yðar verður ekki fyllilega ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar formlega á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til að mynda til forstöðumanns fangelsisins eða Fangelsismálastofnun, sem samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, hefur umsjón með rekstri fangelsa. Þá bendi ég yður á að samkvæmt 4. gr. sömu laga fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn fangelsis­mála. Þar sem þér getið freistað þess að leita til framangreindra stjórnvalda með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða um að leiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun tel ég ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu og lýk því meðferð málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Teljið þér yður enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getið þér leitað til mín a nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.