Almannatryggingar.

(Mál nr. 12003/2023)

Kvartað var yfir Sjúkratryggingum Íslands og að erlend eiginkona íslensks manns væri ekki sjúkratryggð hér á landi þrátt fyrir fulla atvinnuþátttöku, búsetu og hjúskap.   

Ekki varð ráðið að fyrir lægi ákvörðun sjúkratrygginga í málinu og var viðkomandi bent á að bera erindi sitt upp þar og eftir atvikum við úrskurðarnefnd velferðarmála áður en umboðsmaður gæti tekið málið til umfjöllunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar, fyrir hönd eiginkonu yðar A, 9. janúar sl. sem beinist að Sjúkratryggingum Íslands. Ég skil kvörtun yðar sem svo að hún sé ekki sjúkratryggð í heilbrigðiskerfinu hér á landi þrátt fyrir fulla atvinnuþátttöku, búsetu hér á landi og hjúskap með yður. Þá séuð þér ósáttir við að ekki sé tekið tillit til þess að þér séuð sjúkratryggðir hér á landi.

Með kvörtun yðar fylgdi afrit greiðslukvittunar Landspítala til eiginkonu yðar vegna vottorðs og komu á bráðadeildir frá 16. janúar sl., þar sem greinir að hún sé ósjúkratryggð. Kvörtuninni fylgdi einnig bréf Útlendingastofnunar frá 3. nóvember sl. þess efnis að sama dag hafi eiginkona yðar hlotið dvalarleyfi hérlendis.

Fjallað er um sjúkratryggingar í III. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Samkvæmt 9. gr. laganna taka sjúkratryggingar til heilbrigðisþjónustu og annarrar aðstoðar sem ákveðið hefur verið með lögunum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins. Jafnframt taki sjúkratryggingar til bóta samkvæmt lögunum sem greiddar séu í peningum. Sjúkratryggðir einstaklingar eigi rétt til aðstoðar svo sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum.

Í 10. gr. laga nr. 112/2008 er tilgreint hverjir teljist sjúkratryggðir samkvæmt lögunum. Þar segir í 1. mgr.: „Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur.“ Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 112/2008 segir að meginreglan sé sú að einstaklingar öðlist ekki rétt til sjúkratrygginga fyrr en þeir hafi verið búsettir hér á landi í sex mánuði, og þá eingöngu frá og með þeim tíma, þ.e. rétturinn sé ekki afturvirkur. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna ákvarðar sjúkratryggingastofnunin, sbr. 5. gr. laganna, hvort einstaklingur telst sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd hennar, þar sem m.a. sé heimilt að kveða á um undanþágur frá sex mánaða búsetuskilyrðinu. Með stoð í framangreindu ákvæði hefur ráðherra sett reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, með síðari breytingum, en þar er í 8. gr. hennar er að finna upptalningu í fimm stafliðum á þeim tilvikum sem heimilað geta undanþágu frá sex mánaða biðtíma eftir sjúkratryggingu. Þá er í 36. gr. laganna gert ráð fyrir að heimilt sé að kæra ákvarðanir sjúkratrygginga til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindum lagagrundvelli er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til um­boðs­manns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ekki verður ráðið af kvörtun yðar að fyrir liggi ákvörðun sjúkratrygginga um sjúkratryggingar eiginkonu yðar, s.s. um hvort hún uppfylli skilyrði fyrir því að fá undanþágu frá sex mánaða biðtíma eftir sjúkratryggingu, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 og 8. gr. reglugerðar nr. 463/1999. Þannig kann yður að vera fær sú leið að bera upp erindi yðar við sjúkratryggingar og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála innan þriggja mánaða frá tilkynningu um ákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008. Ég tek þó fram að með þeirri ábendingu minni hef ég enga efnislega afstöðu tekið til kvörtunar yðar að öðru leyti.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.