Kvartað var yfir áformum forsætisráðherra um að leggja fram frumvarp til laga um sanngirnisbætur, þ.e.a.s. lækkun bótafjárhæða sem þar eru lagðar til.
Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis voru ekki skilyrði til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 17. janúar sl. yfir áformum forsætisráðherra um að leggja fram frumvarp til laga um sanngirnisbætur. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að þeirri lækkun á bótaupphæðum sem þar eru lagðar til.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. sömu laga tekur starfssvið umboðsmanns ekki til Alþingis og þar með almennt ekki til lagasetningar. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort lög séu í andstöðu við stjórnarskrá heldur dómstóla. Af þeirri afmörkun á starfssviði umboðsmanns tel ég enn fremur leiða að almennt sé ekki rétt að umboðsmaður hafi afskipti af lagasetningarferli, s.s. undirbúningi lagafrumvarpa í ráðuneytum, á grundvelli kvörtunar enda væri ella hætta á að hann tæki með því óbeina afstöðu til starfa Alþingis.
Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði, heldur eru slík mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.
Þótt kvörtun yðar beinist að forsætisráðherra lýtur hún að efni lagafrumvarps sem hefur ekki enn verið lagt fram í þinginu. Þar sem starfssvið mitt tekur ekki til starfa Alþingis eru ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar. Í þessu sambandi bendi ég yður þó á að téð frumvarp til laga um sanngirnisbætur hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum www.samrad.is þar sem fram fer almennt samráð um efni þess. Ég vek því athygli yðar á þeim möguleika að freista þess að koma á framfæri athugasemdum yðar við fyrrgreinda samráðsgátt eða forsætisráðuneytið ef þér hafið ekki þegar gert svo og teljið tilefni til.
Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.