Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11965/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Fangelsismálastofnunar á umsókn um reynslulausn.  

Í ljósi skýringa stofnunarinnar og fyrirætlana um að afgreiða umsóknina við fyrsta tækifæri taldi umboðsmaður ekki ástæður til að aðhafast frekar að svo stöddu. Athugun hans á þessu máli og öðrum sambærilegum varð þó tilefni til að senda Fangelsismálastofnun bréf þar sem spurt var um hver væri meðalafgreiðslutími umsókna, á grundvelli tiltekins lagaákvæðis, um reynslulausn. Þá var óskað eftir því að stofnunin lýsti því hvernig hún teldi umrætt verklag samrýmast málshraðareglu stjórnsýslulaga.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2023.

  

    

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A 14. desember sl. yfir töfum á afgreiðslu Fangelsismálastofnunar á umsókn hans um reynslulausn.

Í tilefni af kvörtuninni var Fangelsismálastofnun ritað bréf 19. desember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi A hefðu borist stofnuninni og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra.

Svar Fangelsismálastofnunar barst 9. janúar sl. en þar kemur fram að með erindum A annars vegar 12. maí sl. og hins vegar 2. nóvember sl. hafi hann sótt um reynslulausn þegar liðinn væri helmingur refsitímans en það tímamark er samkvæmt svarinu 4. nóvember 2023. Í svarbréfinu er tekið fram að umsóknum sé svarað í tímaröð. Í ljósi þess og þess hve langur tími er þangað til komið er að ofangreindu tímamarki hafi umsókn hans ekki verið svarað. Að endingu segir þó í svarinu að erindum A verði svarað við fyrsta tækifæri.

Þar sem kvörtunin lýtur að töfum og í ljósi áforma stofnunarinnar um að afgreiða umsókn A við fyrsta tækifæri tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Ég tel þó rétt að upplýsa yður um að athugun mín á máli yðar og öðrum málum af sama meiði hefur orðið mér tilefni til að rita Fangelsismálastofnun bréf, sem fylgir hjálagt í ljósriti.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Verði frekari tafir á meðferð málsins  getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.    

   


    

Bréf umboðsmanns til Fangelsismálastofnunar 30. janúar 2023.

   

Til umboðsmanns Alþingis leituðu nýlega nafngreindir fangar með kvartanir yfir því að erindum þeirra til Fangelsismálastofnunar vegna umsókna um reynslulausn hefði ekki verið svarað. Í öllum málunum lauk umboðsmaður athugun sinni í kjölfar þess að stofnunin lýsti því yfir að umræddum erindum yrði svarað við fyrsta tækifæri.

Athugun málanna hefur þó gefið umboðsmanni tilefni til að staldra við málsmeðferð Fangelsismálastofnunar að þessu leyti. Málin eiga það sammerkt að fangarnir höfðu allir sótt um að fá lausn til reynslu að liðnum helmingi refsitímans. Umsóknir þeirra höfðu þó borist Fangelsismálastofnun nokkuð löngu áður en sá dagur, sem markaði helming refsitímans, var runninn upp. Í svörum Fangelsismálastofnunar við bréfum umboðsmanns var í öllum tilfellum tekið fram að stofnunin svaraði umsóknum í tímaröð en einnig upplýst að umræddum umsóknum hefði ekki verið svarað vegna þess langa tíma sem upp á vantaði þannig að helmingi refsitímans væri náð. Í kjölfar bréfa umboðsmanns upplýsti stofnunin þó að umsóknir umræddra fanga yrðu teknar „fram fyrir“ og þeim svarað við fyrsta tækifæri.  

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að stofnunin viðhafi það verklag að afgreiða almennt umsóknir í þeirri röð sem þær berast, óháð því hvort frumskilyrði séu uppfyllt eða ekki. Þá kunni sú staða, að verulega langt sé til þess tímamarks sem samkvæmt 3. mgr. 80. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, er skilyrði fyrir reynslulausn á grundvelli ákvæðisins, jafnvel að verða til þess að slíkar umsóknir séu afgreiddar síðar en aðrar umsóknir.

Með vísan til framangreinds er þess óskað, sbr. 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Fangelsismálastofnun upplýsi umboðsmann í fyrsta lagi um hver sé meðalafgreiðslutími umsókna um reynslulausn á grundvelli 3. mgr. 80. gr. laga nr. 15/2016 hjá stofnuninni. Þá er þess í öðru lagi óskað að stofnunin lýsi því hvernig hún telur umrætt verklag við afgreiðslu umsókna um reynslulausn að liðnum helmingi refsitímans samrýmast málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég minni á að þegar tekin er afstaða til þess hvort afgreiðsla máls hjá stjórnvaldi hafi dregist óhæfilega á grundvelli reglunnar reynir á hvaða skyldur hvíla á stjórnvaldi til þess að afgreiða málið, þ.e. til þess að taka efnislega afstöðu til t.d. umsóknar, og að afgreiðsla málsins innan hæfilegs tíma feli í sér efnislegar lyktir málsins þannig að aðila sé t.d. gert kleift að nýta sér rétt sinn til að kæra ákvörðun, þegar það á við.

Þess er óskað að umbeðin svör berist umboðsmanni eigi síðar en 22. febrúar nk.