Vopn. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12017/2023)

Kvartað var yfir synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við umsókn um innflutning á skotfærum eða skotvopnum auk tafa á málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins vegna beiðna um aðgang að tilteknum upplýsingum.  

Ekki varð ráðið að formlegri stjórnsýslukæru hefði verið beint til ráðuneytisins vegna ákvarðana lögreglustjórans og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt málsins að svo stöddu. Hvað tafir á afgreiðslu ráðuneytisins snerti var svo skammur tími liðinn frá því að beiðnir um gögn voru lagðar fram að ekki var heldur ástæða til að aðhafast í þeim efnum að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 19. janúar sl. en af henni og þeim gögnum, sem henni fylgdu, verður ráðið að hún beinist að synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við umsókn yðar um innflutning á skotfærum eða skotvopnum auk tafa á málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins vegna beiðna yðar 2. janúar sl. og 12. sama mánaðar um aðgang að nánar tilgreindum upplýsingum.

Með kvörtun yðar fylgdu ýmis gögn, þ. á m. samskipti yðar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið auk afrita af ákvörðunum lögreglustjóra um að synja yður um umrædd leyfi. Í niðurlagi ákvarðana lögreglustjóra, sem dagsettar eru annars vegar 2. janúar og hins vegar 11. janúar sl., er athygli yðar vakin á kæruheimild 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli hennar verði ákvörðunin kærð til „innanríkisráðuneytisins“ en dómsmálaráðuneytið fer nú með vopnalög og málefni lögreglunnar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þar með talið æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af gögnum er fylgdu kvörtun yðar er ljóst að þér hafið átt í samskiptum við dómsmálaráðuneytið vegna breytinga á viðmiðunarreglum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna undanþága til innflutnings á vopnum hins vegar verður ekki ráðið að þér hafið beint formlegri stjórnsýslukæru til þess svo sem yður var leiðbeint um í ákvörðun ríkislögreglustjóra sem og samskiptum yðar við ráðuneytið. Brestur því lagaskilyrði til að sá hluti kvörtunar yðar, sem lýtur að synjunum ríkislögreglustjóra á leyfisumsóknum, verði tekinn til meðferðar að svo stöddu. Teljið þér yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Af kvörtun yðar og gögnum, sem henni fylgdu, verður ráðið að þér hafið 2. janúar sent dómsmálaráðuneytinu beiðni um tiltekin gögn og svo 12. sama mánaðar óskað eftir aðgangi að tilgreindum úrskurði ráðuneytisins. Af því tilefni er bent á að umboðsmaður hefur almennt miðað við að maður, sem ber fram kvörtun um tafir, leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvalds með ítrekun telji hann drátt hafa orðið á svörum. Þannig gefi hann stjórnvaldinu færi á að bregðast við ef rétt reynist að erindið hafi ekki verið afgreitt á eðlilegum hraða og þá getur stjórnvaldið einnig veitt viðkomandi upplýsingar um hver sé eðlilegur afgreiðslutími og hvenær megi vænta afgreiðslu erindisins. Í ljósi þess hve skammur tími er liðinn frá því þér lögðuð fram téða beiðni um upplýsingar og þar sem ekki verður ráðið að beiðnin hafi verið ítrekuð er ekki tilefni til að ég aðhafist frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtun yðar. Verði frekari tafir á meðferð beiðnanna getið þér, að undangenginni ítrekun leitað til mín á nýjan leik með kvörtun.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.