Almannatryggingar.

(Mál nr. 11999/2023)

Kvartað var yfir því að umsókn frá því í maí um fjárhagsaðstoð hjá Akureyrarbæ hefði ekki verið afgreidd.

Bærinn greindi frá því að allar umsóknir viðkomandi hefðu verið afgreiddar og veittar leiðbeiningar um heimild til að bera ákvörðun velferðarsviðs undir velferðarráð sveitarfélagsins. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 5. janúar sl. maí sl. yfir því að umsókn yðar um fjárhagsaðstoð hafi enn ekki verið afgreidd. 

Í tilefni af kvörtuninni var Akureyrarbæ ritað bréf 11. janúar sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort sveitarfélagið hefði umsókn A til meðferðar og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Nú hefur borist svarbréf frá Akureyrarbæ 23. janúar sl. þar sem fram kemur að sveitarfélaginu hafi á liðnum mánuðum borist nokkrar umsóknir frá yður um fjárhagsaðstoð. Þá segir í bréfinu að allar umsóknir yðar hafi verið afgreiddar með ákvörðun sveitarfélagsins, nú síðast vegna umsóknar yðar um fjárhagsaðstoð fyrir janúarmánuð. Mun yður hafa verið leiðbeint um heimild til að bera ákvörðun velferðarsviðs undir velferðarráð sveitarfélagsins.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls og í ljósi  þess að sveitarfélagið hefur afgreitt umsóknir yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Ég vek þó athygli yðar á því að ef þér farið þá leið að bera ákvörðun undir velferðarráð sveitarfélagsins og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála, en þangað er unnt að kæra endanlega ákvörðun sveitarfélagsins, getið þér leitað til mín á ný séuð þér enn ósáttir.

Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.