Kvartað var yfir því að Hafnarfjarðarbær hefði krafist greiðslu vegna lóðar sem áætlað væri að afhenda 1. desember 2023. Greiðsluskilmálar væru íþyngjandi og ekki í samræmi við meðalhóf.
Um ráðstöfun sveitarfélaga á lóðum í sinni eigu með leigu eða sölu gilda ekki sérstök lög og er þar af leiðandi ólögbundið verkefni sveitarfélaga. Þeim ber þó við ákvörðun endurgjalds fyrir lóð í samningi að haga framgöngu sinni í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og málefnaleg sjónarmið. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við fyrirkomulag sveitarfélagsins.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. janúar 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 18. desember sl. vegna greiðslu sem Hafnarfjarðarbær hefur krafist að þér innið af hendi vegna lóðar sem yður var úthlutað í nóvember sl. og áætlað er að verði afhent 1. desember 2023. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu er verð lóðarinnar um 22 milljónir króna og bar yður að greiða 17 milljónir af þeirri upphæð hinn 18. janúar sl. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið téða greiðsluskilmála mjög íþyngjandi og ekki í samræmi við meðalhóf enda neyðist kaupendur til að taka lán í mjög óhagstæðu lánaumhverfi eða selja eignir sínar til að standa skil á greiðslum.
Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgara gagnvart stjórnvöldum landsins. Um ráðstöfun sveitarfélaga á lóðum í sinni eigu með leigu eða sölu gilda ekki sérstök lög og er þar þar af leiðandi um að ræða ólögbundið verkefni sveitarfélaga. Þannig hafa hvorki verið settar reglur um hvernig sveitarfélag skuli standa að úthlutun lóða, t.d. til útleigu, né um það endurgjald sem sveitarfélög innheimta fyrir þær. Í framkvæmd hefur þó verið gengið út frá því að um þann þátt er snýr að sjálfri úthlutun byggingarlóða gildi reglur stjórnsýslulaga 37/1993 svo og óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins. Hins vegar hefur verið lagt til grundvallar að eftir úthlutun fari leiga eða sala sveitarfélaga á byggingarlóðum fram á einkaréttarlegum grunni en af því leiðir að um réttindi og skyldur lóðarleigutaka eða kaupanda fer að meginstefnu eftir þeim samningi sem hann gerir við sveitarfélag og þeim réttarreglum sem um slíka samninga gilda, m.a. óskráðum reglum fjármunaréttar um brostnar forsendur og ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og þeim hefur síðar verið breytt. Hvað sem því líður ber sveitarfélagi við slíkar aðstæður m.a. við ákvörðun endurgjalds fyrir lóð í samningi, að haga framgöngu sinni í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og málefnaleg sjónarmið.
Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu, þ. á m. almenna úthlutunarskilmála sveitarfélagsins frá 1. október sl. vegna téðrar lóðaleigu og þann samning sem lá leigunni til grundvallar tel ég ekki líkur á því að frekari athugun af minni hálfu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við fyrirkomulag sveitarfélagsins að þessu leyti. Hef ég þá m.a. í huga að ekki verður annað ráðið en að heildarupphæð lóðaverðsins hafi legið fyrir við úthlutun lóðarinnar auk þess sem í almennum úthlutunarskilmálum vegna umræddra íbúðarhúsalóða kom fram að eindagi lóðaverðs hafi verið þann 18. janúar sl. Sé það hins vegar afstaða yðar að sá samningur sem þér gerðuð við sveitarfélagið sé ógildanlegur samkvæmt reglum fjármunaréttar tel ég að um sé að ræða atriði sem eigi undir dómstóla og eðlilegra sé að þeir leysi úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, læt ég athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið.