Menntamál.

(Mál nr. 11974/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytisins að synja endurupptöku máls vegna mats og viðurkenningu á menntun í matreiðslu frá Bandaríkjunum. 

Að virtum gögnum málsins og atvikum þess undanfarin ár taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að fyrri ákvarðanir þess hefðu ekki verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum málsatvikum eða atvik breyst þannig í málinu að borið hefði að endurupptaka það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 19. desember sl. sem lýtur að þeirri ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytisins frá 16. desember sl. að synja endurupptöku máls er varðar mat og viðurkenningu á menntun yðar í matreiðslu frá Bandaríkjunum í tilefni af kvörtun yðar til ráðuneytisins 23. nóvember sl. vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar frá 21. nóvember sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var mennta- og barnamálaráðuneytinu ritað bréf 22. desember sl. þar sem óskað var eftir afriti af öllum gögnum málsins. Gögnin bárust með bréfi ráðuneytisins 9. janúar sl. og varpa þau ljósi á margvísleg samskipti yðar við stjórnvöld í gegnum tíðina í tengslum við beiðni yðar um að fá menntun yðar frá [...] og starfsreynslu metna til sveinsprófs í matreiðslu. Samskiptin virðast hafa farið fram á árunum 1998 til 2000, 2005, 2019, 2021 og loks í október til desember 2022.

Í ákvörðun ráðuneytisins frá 16. desember sl. er forsaga málsins rakin. Þar kemur fram að þér hafið á liðnum árum leitað til þess og síðar Menntamálastofnunar í því skyni að fá menntun yðar í matreiðslu frá Bandaríkjunum viðurkennda. Þannig hafi ráðuneytið með ákvörðun 24. september 2019 hafnað beiðni yðar þar að lútandi. Í þeirri ákvörðun kom fram að við meðferð málsins hefði ráðuneytið falið reyndum fagmönnum að leggja mat á þekkingu og hæfni yðar í viðtali. Niðurstaða matsins hefði verið sú að þér uppfylltuð ekki lágmarkskröfur sem gerðar voru til lokaprófs í matreiðslu. Þá munuð þér hafa leitað til ráðuneytisins á ný 15. mars 2021 vegna sama máls. Með bréfi 19. mars 2021 var fyrri afstaða ráðuneytisins ítrekuð og yður tilkynnt um að það gæti ekki aðhafst frekar í máli yðar. Þá kemur fram í téðu bréfi ráðuneytisins að í ljósi fyrri meðferðar málsins og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, hafi ráðuneytið litið á erindi yðar frá 23. nóvember sl. sem beiðni um endurupptöku.

Um endurupptöku stjórnsýslumála er fjallað í 24. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófull­nægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölulið 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölulið sömu málsgreinar.

Heimildir stjórnvalda til endurupptöku máls eru þó ekki bundnar við þær aðstæður sem nefndar eru í 24. gr. stjórnsýslulaga heldur getur málsaðili átt rétt til endurupptöku á grundvelli ólögfestra reglna, s.s. þegar efnislegur annmarki er á hinni upphaflegu ákvörðun eða þegar fyrir hendi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð.

Af niðurstöðu ráðuneytisins og gögnum málsins verður ráðið að ráðuneytið hafi í tilefni af erindi yðar óskað eftir upplýsingum og gögnum frá Menntamálastofnun um umsókn yðar, þ. á m. öllum gögnum sem gætu sýnt fram á frekari reynslu eða hæfni eftir að þér gengust undir téð hæfnismat í ágústmánuði 2019. Að fengnu svari stofnunarinnar, en þar kom fram að þér hefðuð ekki bætt við yður frekara námi heldur eingöngu  starfsreynslu, taldi ráðuneytið ekkert í meðferð málsins benda til þess að ekki hefði legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um menntun yðar og hæfni í matreiðslu við fyrri meðferð mála yðar hjá stjórnvöldum. Þá yrði ekki litið svo á að atvik í máli yðar hefðu breyst verulega. Endurupptökubeiðni yðar var því synjað.

Í tilefni af kvörtun yðar hef ég farið yfir gögn málsins, þ. á m. fyrri ákvarðanir ráðuneytisins og þau gögn og forsendur sem lágu þeim til grundvallar. Að öllu virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að fyrri ákvarðanir þess hafi ekki verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum málsatvikum eða atvik breyst í máli yðar þannig að borið hafi að endurupptaka mál yðar samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eða ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.