Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi.

(Mál nr. 12022/2023)

Kvartað var yfir því að við endurnýjun ökuskírteinis hefðu réttindi til að aka stórum vöru- og fólksflutningabifreiðum verið takmörkuð við að akstur þeirra væri ekki í atvinnuskyni. Var viðkomandi ósáttur við að endurnýjun fyrri réttinda á þessar bifreiðar væri bundið við að hafa í millitíðinni lokið sérstökum námskeiðum. 

Þar sem synjun sýslumanns um endurnýjun ökuréttindanna hafði ekki verið kærð til innviðaráðuneytisins voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 1. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til erindis yðar 24. janúar sl. þar sem þér kvartið yfir því að við nýlega útgáfu ökuskírteinis til yðar, þ.e. endurnýjun á ökuskírteini, hefðu réttindi yðar til að aka stórum vöru- og fólksflutningabifreiðum verið takmörkuð við að akstur þeirra væri ekki í atvinnuskyni. Nánar tiltekið eruð þér ósáttar við að endurnýjun fyrri réttinda á þessar bifreiðar sé bundin við að viðkomandi hafi í millitíðinni lokið sérstökum námskeiðum. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið formlega sótt um að ökuréttindi yðar til vöru- og farþegaflutninga verði endurnýjuð og þeirri umsókn hafi verið synjað.

Í 10. mgr. 58. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, kemur fram að ökumenn sem stjórni ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og farmflutninga í atvinnuskyni skuli gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti og ráðherra kveði nánar á um tilhögun endurmenntunar í reglugerð. Nánar er vikið að endurmenntunarkröfunum í reglugerð nr. 830/2011, um ökuskírteini. Ef sýslumaður synjar umsókn um endurnýjun ökuréttinda getur umsækjandi kært synjunina til innviðaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið kært synjun sýslumannsins til innviðaráðuneytisins eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ég tek fram að kjósið þér að bera synjun sýslumanns undir ráðuneytið getið þér leitað til mín á ný teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins til máls yðar.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.