Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12023/2023)

Kvartað var yfir lögreglustjóranum á Suðurnesjum og ýmsum atriðum tengdum framgöngu lögreglunnar þar.  

Þar sem ekki hafði verið leitað til nefndar um eftirlit með lögreglu með málið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 3. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. janúar sl. yfir lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Kvörtun yðar lýtur að ýmsum atriðum tengdum framgöngu lögreglunnar, m.a. að þér hafið orðið fyrir líkamsárás af hendi lögreglu og synjun lögreglustjórans um að hefja rannsókn vegna hennar. Þá beinist kvörtunin að málsmeðferð fyrir dómstólum í tilteknu sakamáli árið 2017.

Í upphafi tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélag á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við síðastnefnda ákvæðið fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um málsmeðferð og niðurstöður dómstóla.

Í 35. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 er fjallað um hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu, en meðal hlutverka hennar samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. lagagreinarinnar er að taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans og taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Í 2. og 3. mgr. lagagreinarinnar segir að nefndin skuli taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu og senda viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar ef tilefni er til. Nefndin skuli fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fá til meðferðar kvartanir sem heyra undir nefndina skulu tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Nefndin skuli einnig senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athugasemdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir ef henni þykir tilefni til.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar.  

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til nefndar um eftirlit með lögreglu með kæru á hendur starfsmanni lögreglu eða kvörtun vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu gagnvart yður. Lagaskilyrði brestur því til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar þér teljið yður en beittan rangsleitni er yður fært á að leita til mín á ný innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.