Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 12019/2023)

Kvartað var yfir því að þrátt fyrir álit umboðmanns í máli nr. 10652/2020 sé enn viðhaft það verklag hjá Tryggingastofnun og ýmsum öðrum stofnunum að undirrita hvorki ákvarðanir né eftirfarandi rökstuðning þeirra með nafni þeirra starfsmanna sem að þeim standa. 

Umboðsmaður hefur ekki að lögum réttarskipandi vald í einstökum málum sem hann hefur til meðferðar. Getur hann því ekki tekið ákvarðanir sem binda enda á þann ágreining sem fyrir lá. Málum sem umboðsmaður hefur til meðferðar getur þannig lokið með áliti þar sem sett eru fram tilmæli til stjórnvalda og það fer síðan eftir frekari athöfnum þess sem leitað hefur til umboðsmanns og viðbrögðum stjórnvaldsins hver verður framgangur málsins. 

Í tilefni af vinnu við árlega skýrslu umboðs­manns Alþingis fyrir árið 2021 var Tryggingastofnun ritað bréf þar sem m.a. var óskað eftir því að upplýst yrði hvort og þá með hvaða hætti hugað hefði verið að þeim almennu sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu. Í svari Tryggingastofnunar kom m.a. fram að í kjölfar álitsins hefði hafist vinna við endurskoðun á framsetningu stjórnvaldsákvarðana og annarra tilkynninga frá stofnun­inni sem tæki til fleiri þátta en undirritunar. Þessi vinna stæði enn yfir og vinnulag við undirritun því enn óbreytt. Aðilar gætu hins vegar óskað eftir upplýsingum um hvaða starfsfólk hefði komið að ákvörðun í máli þeirra og væru þær upplýsingar veittar svo fljótt sem auðið væri.

Af meðfylgjandi gögnum væri ekki ljóst hvort óskað hafi verið eftir þessum upplýsingum frá Tryggingastofnun. Hefði það ekki verið gert benti umboðsmaður viðkomandi á óska mætti eftir þeim. Færi svo að beiðninni yrði synjað mætti freista þess að bera hana undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Að fenginni niðurstöðu stjórnvaldanna væri hægt að leita aftur til umboðsmanns.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A 20. janúar sl. sem beinist að því að þrátt fyrir álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10652/2020 frá 2. júlí 2021, sé enn viðhaft það verklag hjá Trygginga­stofnun og ýmsum öðrum stofnunum, t.d. Fangelsismálastofnun, að undirrita hvorki ákvarðanir né eftirfarandi rökstuðning vegna þeirra með nafni þeirra starfsmanna sem að þeim standa. Með kvörtun yðar fylgdi ákvörðun Tryggingastofnunar 20. október sl. og rökstuðningur vegna hennar 19. janúar sl. í máli umbjóðanda yðar þar sem ekki koma fram nöfn starfsmanna. 

Í téðu áliti umboðsmanns voru framangreindir starfshættir Tryggingastofnunar til umfjöllunar. Þar var það niðurstaða umboðsmanns að sú afstaða Tryggingastofnunar að birta almennt ekki nöfn starfsmanna sem stæðu að baki ákvörðunum stofnunarinnar væri ekki í samræmi við kröfur sem gera yrði til forms og framsetningar stjórn­valdsákvarðana í ljósi réttaröryggissjónarmiða og vandaðra stjórn­sýslu­hátta.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í ákvæðum 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er enn fremur kveðið á um það með hvaða hætti umboðsmanni sé heimilt að ljúka meðferð kvartana sem honum hafa borist. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður lokið máli sem hann hefur tekið til nánari athugunar með áliti á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar ekki að lögum réttarskipandi vald í einstökum málum sem hann hefur til meðferðar. Getur hann því ekki tekið ákvarðanir sem binda enda á þann ágreining sem fyrir liggur. Mál sem umboðsmaður hefur til meðferðar getur þannig lokið með áliti þar sem sett eru fram tilmæli til stjórnvalda og það fer síðan eftir frekari athöfnum þess sem leitað hefur til umboðsmanns og viðbrögðum stjórnvaldsins hver verður framgangur málsins.

Í tilefni af vinnu við árlega skýrslu umboðs­manns Alþingis fyrir árið 2021 til Alþingis, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997, var Tryggingastofnun ritað bréf þar sem m.a. var óskað eftir því að upplýst yrði hvort og þá með hvaða hætti hugað hefði verið að þeim almennu sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu. Í svari Tryggingastofnunar kom m.a. fram að í kjölfar álitsins hefði hafist vinna við endurskoðun á framsetningu stjórnvaldsákvarðana og annarra tilkynninga frá stofnun­inni sem tæki til fleiri þátta en undirritunar. Þessi vinna stæði enn yfir og vinnulag við undirritun því enn óbreytt. Aðilar gætu hins vegar óskað eftir upplýsingum um hvaða starfsfólk hefði komið að ákvörðun í máli þeirra og væru þær upplýsingar veittar svo fljótt sem auðið væri.

Af meðfylgjandi gögnum er ekki ljóst hvort óskað hafi verið eftirtéðum upplýsingum frá Tryggingastofnun. Hafi það ekki verið gert bendi ég yður á að umbjóðandi yðar, eða þér fyrir hans hönd, getið óskað eftir þeim hjá Trygginga­stofnun. Fari svo að beiðni yðar verði synjað getið þér freistað þess að bera hana undir úrskurðarnefnd velferðarmála innan þess 14 daga frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda og séuð þér enn ósáttir getið þér, eða umbjóðandi yðar, leitað til mín á nýjan leik.

Hvað varðar athugasemdir yðar um sambærilega starfshætti Fangelsis­málastofnunar og annarra stofnana fæ ég ekki betur séð en að þær séu almenns eðlis en varði ekki hagsmuni umbjóðanda yðar sérstaklega. Af því tilefni bendi ég yður á að farið er yfir almennar ábendingar sem berast umboðsmanni með tilliti til þess hvort tilefni sé til að umboðs­maður taki atriði sem þar koma fram til athugunar að eigin frum­kvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á vefsíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.