Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Akstursþjónusta. Skattar og gjöld. Þjónustugjöld. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 11617/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn hans um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks í ljósi þess að gjaldskrá sveitar­félagsins gerði ekki ráð fyrir slíkum kortum eða annars konar magn­afslætti.

Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort þær reglur og sú gjaldskrá sem synjun við umsókn A var byggð á hefðu verið í samræmi við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og þar með hvort úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli A hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að sveitarfélögum bæri skylda til að gefa fötluðu fólki kost á akstursþjónustu. Um lögbundna þjónustu væri að ræða en fyrir slíka þjónustu gætu stjórnvöld ekki innheimt gjald án heimildar í lögum. Sú gjaldtökuheimild sem reyndi á í málinu heimilaði sveitarfélögum töku þjónustugjalds vegna akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og sveitarfélögum væri falin nánari útfærsla á gjaldinu með reglum og gjaldskrá. Gjaldið þyrfti þó að vera „sambærilegt“ gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði, í samræmi við orðalag gjaldtökuheimildarinnar.

Umboðsmaður tók m.a. fram að lögbundin akstursþjónusta fyrir fatlað fólk væri í ýmsu tilliti annars eðlis en sú þjónusta sem fælist í almenningssamgöngum, m.a. m.t.t. til kostnaðar og aðgengileika, en löggjafinn hefði engu að síður tekið sérstaka afstöðu til gjaldtöku fyrir þessa þjónustu. Túlka yrði gjaldtökuheimildina á þann hátt að ekki væri nægjanlegt að gjald væri miðað við gjaldskrá fyrir almenningssamgöngur ef það leiddi til þess að fatlað fólk þyrfti í reynd að greiða verulega meira en aðrir fyrir það að komast ferða sinna. Umboðsmaður taldi ljóst að fötluðu fólki stæði ekki til boða að meta og ákveða sjálft, miðað við aðstæður þess hverju sinni, hvort það hagræði sem gæti falist í notkun tímabilskorta eða annars konar magnafslætti hentaði því og að ekki yrði annað séð en að fatlað fólk sem notaði akstursþjónustu reglulega þyrfti í reynd að greiða töluvert hærra gjald fyrir þjónustuna en þeir sem nýttu sér almenningssamgöngur með tímabilskorti Strætó bs.

Það var niðurstaða umboðsmanns að í gjaldskrá sveitarfélagsins hefði ekki verið tryggt með fullnægjandi hætti að gjald fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks væri sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í skilningi gjaldtökuheimildarinnar. Úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli A hefði því ekki verið í samræmi við lög. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 18. apríl 2023.