Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11792/2022)

Kvartað var yfir synjun lögreglu um að afhenda gögn í máli. 

Í ljósi þess að viðkomandi varð ekki við ítrekuðum beiðnum umboðsmanns um að veita nánari upplýsingar og senda frekari gögn sem varpað gætu ljósi á kvörtunarefnið varð að líta svo á að kvörtunin væri ekki studd nægjanlegum gögnum til að vera tæk til umfjöllunar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. október 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. júlí sl., þar sem þér gerið athugasemdir við að lögreglan hafi synjað því að afhenda yður gögn í máli yðar.

Í tilefni af kvörtuninni og í ljósi þess að engin gögn fylgdu með henni var yður ritað bréf 17. ágúst sl., þar sem fram kom að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skuli lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar og að gerð sé sú krafa að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik fylgi kvörtun. Í ljósi þessa var þess óskað að þér afhentuð mér frekari upplýsingar og gögn sem varpað gætu nánara ljósi á kvörtun yðar, m.a. afrit af samskiptum yðar við lögregluna sem varða kvörtunarefnið, væru þau fyrir hendi, og eftir atvikum önnur gögn sem þér telduð að gætu varpað frekara ljósi á málið.

Með tölvubréfi 30. ágúst sl. óskuðuð þér eftir frekari leiðbeiningum, og með tölvubréfi 31. ágúst sl. var yður gerð nánari grein fyrir hvaða gögnum óskað væri eftir af hálfu umboðsmanns svo hægt væri að taka ákvörðun um framhald málsins. Sama dag greinduð þér frá því í símtali við starfsmann umboðsmanns að lögfræðingur yðar hefði átt í samskiptum við lögregluna vegna málsins og að þér mynduð skila gögnum frá honum við fyrsta tækifæri. Í símtali við starfsmann umboðsmanns 21. september sl. greinduð þér frá því að samskipti lögfræðings yðar við lögregluna hefðu einungis verið munnleg. Óskað hefði verið eftir skriflegu svari frá lögreglunni en það ekki enn borist. Ekki væri því von á frekari gögnum frá yður að svo stöddu.

Í ljósi þess að þér hafið ekki orðið við beiðnum um að veita nánari upplýsingar og senda umboðsmanni frekari gögn sem varpað geta ljósi á kvörtunarefnið verður að líta svo á að það sé ekki stutt nægjanlegum gögnum til að vera tækt til umfjöllunar af minni hálfu að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Hafið þér frekari athugasemdir og viðeigandi gögn eða upplýsingar fram að færa getið þér freistað þess að leita til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.