Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11920/2022)

Kvartað var yfir töfum á framkvæmd Vinnumálastofnunar við endurútreikning á áður innheimtum ofgreiddum bótum til þeirra sem fengu uppsafnað orlof eða orlofsuppbót á meðan þau voru á hlutabótum árin 2020 og 2021. Erindum til bæði Vinnumálastofnunar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins hefði ekki verið svarað. 

Í ljós kom að ráðuneytið hafði framsent erindið til Vinnumálastofnunar en láðst að láta viðkomandi vita af því. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa. Hvað Vinnumálastofnun snerti benti hann á að kæra mætti óhóflegan drátt á afgreiðslu hennar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að fenginni niðurstöðu þar væri unnt að bera erindið undir umboðsmann. Af svari Vinnumálastofnunar var hins vegar ljóst að ekki væri fyrirsjáanlegt hvenær afgreiðslu erindisins lyki. Ekki varð annað séð en tafirnar væru af almennum orsökum og sendi umboðsmaður því stofnunni fyrirspurnarbréf og óskaði nánari skýringa á stöðunni.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. nóvember sl. sem beinist einkum að framkvæmd Vinnumálastofnunar við endurútreikning á áður innheimtum ofgreiddum bótum til þeirra sem fengu greitt uppsafnað orlof eða orlofsuppbót á meðan þeir voru á hlutabótum árin 2020 og 2021. Samkvæmt kvörtuninni senduð þér erindi til Vinnumálastofnunar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins 3. og 9. maí sl. vegna þeirrar framkvæmdar án þess að þeim erindum hafi verið svarað.

Í tilefni af kvörtun yðar voru Vinnumálastofnun og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu rituð bréf 23. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu erinda yðar. Svar ráðuneytisins barst 15. desember sl. þar sem fram kemur að erindi yðar hafi verið framsent Vinnumálastofnun til afgreiðslu með tölvubréfi 30. júní sl. en farist hafi fyrir að upplýsa yður um það sem ráðuneytinu þyki miður, en úr því hafi nú verið bætt.

Svar Vinnumálastofnunar barst 26. janúar sl. en þar segir að innleiðing nýs tölvukerfis hafi valdið miklum töfum á innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, greiðsludreifingum og leiðréttingum á hlutabótaskuldum. Þær tafir hafi valdið því að stofnunin hafi ekki hafið vinnu við að taka til úrlausnar beiðnir um endurútreikning atvinnuleysisbóta þeirra sem hafi fengið greitt orlof samhliða greiðslu hlutabóta, þar sem kerfið bjóði enn sem komið er ekki upp á slíka lausn. Hins vegar hafi verið unnið að undirbúningi og mögulegum útfærslum svo hægt verði að framkvæma slíka endurútreikninga á sem skilvirkastan hátt. Þar segir einnig að stofnunin geti ekki sagt fyrir um með vissu hvenær beiðni yðar um endurútreikning verði tekin fyrir en að slíkar beiðnir verði teknar fyrir í þeirri röð sem þær bárust.

Samkvæmt framangreindu hefur ráðuneytið lokið afgreiðslu sinni á erindi yðar og beðist afsökunar á því að hafa ekki upplýst yður um þann farveg sem það var lagt í. Tel ég því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna afgreiðslu ráðuneytisins. Vegna þeirrar stöðu sem uppi er í máli yðar hjá Vinnumálastofnun tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Í ljósi þessa vek ég athygli yðar á því að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að það leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að almennt er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af málum fyrr en þau hafa endanlega verið til lykta leidd innan stjórnsýslunnar að fulltæmdum kæruleiðum. Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu um að kæruleið sé tæmd, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn mála sinna enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað valdi töfunum og hvenær ráðgert sé að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður athugun sinni á málinu.

Þessar fyrirspurnir umboðsmanns eru einnig settar fram til þess að fylgjast með því hvort fyrir hendi sé almennur eða kerfislægur vandi hjá stjórnvöldum að því er varðar málshraða. Komi slíkt í ljós eða fyrir liggur að mál hefur dregist óhæfilega og án fullnægjandi skýringa þarf umboðsmaður að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að hann ráðist í frekari athugun á málinu að eigin frumkvæði eða, ef um einstakt eða einstök mál hjá sama stjórnvaldi er að ræða, hvort leiðbeina eigi viðkomandi um að leita til kærustjórnvalds ef kæruheimild vegna tafa á afgreiðslu máls er fyrir hendi. Er þar m.a. litið til þess að niðurstaða kærustjórnvalds er bindandi fyrir lægra setta stjórnvaldið en það er undir ákvörðun stjórnvalda komið hvort þau verði við tilmælum umboðsmanns, þótt það sé jafnan raunin.

Af svari Vinnumálastofnunar er ljóst að ekki er fyrirsjáanlegt hvenær stofnunin muni ljúka afgreiðslu sinni á beiðni yðar, en ekki liggur annað fyrir en að þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu málsins séu af almennum orsökum en varði ekki mál yðar sérstaklega. Tel ég því rétt að þér freistið þess að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, teljið þér afgreiðslu málsins hafa dregist óhæfilega hjá Vinnumálastofnun. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fulltæmdum kæruleiðum innan stjórnsýslunnar getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Kvörtunin og þau svör sem mér hafa borist frá Vinnumálastofnun hafa þó gefið mér tilefni til að rita stofnuninni hjálagt bréf þar sem óskað er eftir nánar greindum upplýsingum.

   


 

            

Bréf umboðsmanns til Vinnumálastofnunar 7. febrúar 2023.

   

Til umboðsmanns Alþingis leitaði nýlega nafngreindur maður með kvörtun sem beindist m.a. að töfum Vinnumálastofnunar við endurútreikning á áður innheimtum ofgreiddum atvinnuleysisbótum til þeirra sem fengu greitt uppsafnað orlof eða orlofsuppbót á meðan þeir voru á hlutabótum árin 2020 og 2021. Hafði hann óskað eftir slíkum endurútreikningi í maí 2022 í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála 24. febrúar þess árs þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að skerða atvinnuleysisbætur vegna orlofs, orlofsuppbótar eða desemberuppbótar í þeim mánuði sem sú greiðsla var innt af hendi. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, í kjölfar þess að upplýst var um að almennar tafir væru á endurgreiðslu áðurnefndra bóta.

Í svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn umboðsmanns kemur fram að stofnunin hafi á undanförnum mánuðum unnið að umfangsmiklum breytingum í starfsemi sinni. Þær breytingar lúti að þróun, uppsetningu og innleiðingu nýs tölvukerfis, sem taki til allra þátta starfsemi Vinnumálastofnunar. Kerfið hafi verið tekið í notkun í maí 2022 og enn sé unnið að innleiðingu þess. Þessi breyting hafi valdið atvinnuleitendum, sem og starfsmönnum stofnunarinnar, erfiðleikum enda fylgi breytingunum töluverðar tafir á úrlausnum mála.

Í svarinu kemur einnig fram að þær miklu tafir sem fylgt hafi innleiðingu tölvukerfisins valdi því að Vinnumálastofnun hafi ekki hafið vinnu við að taka til úrlausnar beiðnir um endurútreikning atvinnuleysisbóta vegna þeirra sem hafi fengið greitt orlof samhliða greiðslu hlutabóta. Enn sem komið er bjóði nýja tölvukerfið ekki upp á slíka lausn og sé frekari vinnu þörf til að unnt verði að ráðast í það verkefni. Stofnunin ítreki þó að lengi hafi verið unnið að undirbúningi og mögulegum útfærslum svo hægt verði að framkvæma endurútreikning á sem skilvirkastan hátt.

Með hliðsjón af framangreindu og áður en umboðsmaður tekur ákvörðun um hvort hann taki mál þetta til frekari athugunar á grundvelli þeirra heimilda sem honum eru fengnar samkvæmt lögum nr. 85/1997 er þess óskað, sbr. 5. og 7. gr. þeirra laga, að Vinnumálastofnun veiti upplýsingar um eftirfarandi: 

  1. Af svari Vinnumálastofnunar verður ekki annað ráðið en að innleiðing hins nýja tölvukerfis hafi valdið umtalsverðum hnökrum í starfsemi stofnunarinnar. Af því tilefni er óskað upplýsinga um hvort tölvukerfið hafi verið prófað áður en það var tekið í gagnið, m.a. með tilliti til þess hvernig það félli að starfsemi stofnunarinnar, og þá með hvaða hætti. 
  1. Þess er óskað að veittar verði upplýsingar um umfang þeirra tafa sem orðið hafa á afreiðslu mála hjá Vinnumálastofnun af ofangreindum orsökum, þ.e. hvort þær séu bundnar við tiltekna málaflokka eða hvort þær taki til starfsemi stofnunarinnar í heild. Samkvæmt svari Vinnumálastofnunar hefur vinna við endurútreikning á atvinnuleysisbótum þeirra sem fengu orlof greitt samhliða hlutabótum ekki enn hafist vegna innleiðingar tölvukerfisins. Af þessu tilefni er óskað upplýsinga um hversu margar beiðnir um endurútreikning atvinnuleysisbóta hafa borist stofnuninni frá því í febrúar 2022 og hversu margar þeirra hafa verið afgreiddar nú þegar. Í ljósi þess að fyrir liggur að þær tafir sem hlotist hafa af innleiðingu tölvukerfisins hafa staðið yfir í töluvert langan tíma er einnig óskað upplýsinga um hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að endurútreikningur bótanna sé framkvæmdur með öðrum hætti en með notkun tölvukerfisins. Ef svo er þá er þess vænst að Vinnumálastofnun geri nánari grein fyrir þeim undirbúningi og mögulegu útfærslum sem unnið hafi verið að svo unnt sé að framkvæma endurútreikning bótagreiðslna stofnunarinnar sem fyrst með notkun kerfisins. 
  1. Loks er óskað upplýsinga um hvort Vinnumálastofnun hafi að eigin frumkvæði upplýst þá sem óskað hafa eftir endurútreikningi atvinnuleysisbóta, í kjölfar áðurnefndra úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála, um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu erinda þeirra, ástæður tafanna og hvenær þeir megi vænta svars í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi slíkar tilkynningar verið sendar er þess óskað að umboðsmanni verði afhent sýnishorn af þeim.

Þess er óskað að umbeðin svör berist umboðsmanni eigi síðar en 2. mars nk.