Skattar og gjöld. Fráveita. Holræsagjald. Lögmætisreglan. Þjónustugjöld.

(Mál nr. 3221/2001)

A kvartaði yfir álagningu gjalds vegna fráveituframkvæmda og úrskurði nefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem hafnað var kröfum hans um afturköllun gjaldskrár nr. 184/1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ og um endurgreiðslu þegar greiddra gjalda.

Umboðsmaður tók fram að holræsa- og fráveitumál væru meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Benti hann á að í ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og ákvæðum 1. og 2. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, birtist sú meginregla að tekjuöflun sveitarfélaga yrði að byggjast á heimild í lögum óháð því hvort um væri að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu sem látin væri í té. Umboðsmaður rakti X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 og benti á að Reykjanesbær hefði nýtt sér heimild 87. gr. laganna um töku gjalds vegna holræsa. Þá rakti hann ákvæði 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem var í gildi þegar gjaldskrá nr. 184/1997 var staðfest, og 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem leysti fyrrnefnt ákvæði af hólmi, um heimild fyrir sveitarfélög að setja sérstakar heilbrigðissamþykktir umfram það sem leiddi af ákvæðum landsreglugerðar og til gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Jafnframt rakti hann ákvæði gjaldskrár nr. 184/1997 en í 2. gr. hennar kemur fram að gjald það sem gjaldskráin hljóðar um rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.

Umboðsmaður tók fram að í máli þessu reyndi á hvort ákvæði 18. gr. laga nr. 81/1988, nú 25. gr. laga nr. 7/1998, um að sveitarfélögin geti sett sér eigin samþykktir og gert þar ítarlegri kröfur, og um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu, heimili að innheimt sé sérstakt gjald af húsum og húshlutum í sveitarfélaginu til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva fyrir fráveituvatn. Taldi hann að skýra yrði framangreinda heimild sveitarfélaga þannig að þar yrði að vera um að ræða viðfangsefni og kröfur sem rúmast innan efnisákvæða laganna. Benti umboðsmaður á að ákvæði laganna hefðu ekki að geyma efnisreglur um hvernig sveitarfélögum bæri að standa að byggingu þessara mannvirkja. Væri hins vegar ljóst að í samræmi við almenn ákvæði laganna þyrftu sveitarfélög að haga uppbyggingu þeirra þannig að gætt væri þeirra krafna sem lög og reglugerðir setja um verndun umhverfis. Af því leiddi hins vegar ekki að sveitarfélög gætu án sérstakrar lagaheimildar lagt gjald á t.d. eigendur fasteigna til að standa straum af kostnaði við að mæta þessum auknu kröfum. Umboðsmaður benti á að gjaldskrá nr. 184/1997 mælti ekki fyrir um innheimtu gjalds fyrir viðtöku á fráveituvatni til að mæta hreinsun þess heldur væri um að ræða sjálfstæða gjaldtöku til að standa straum af kostnaði við byggingu mannvirkja sem síðar ættu að nýtast til hreinsunar fráveituvatns. Gjaldið væri ákveðið sem föst krónutala án tillits til stærðar, verðmætis og notkunar eignar. Gjaldtakan væri þannig ekki framkvæmd á grundvelli raunverulegrar notkunar eða veittrar þjónustu. Taldi umboðsmaður að á skorti að bein tengsl stæðu á milli skyldu til að greiða umrætt gjald og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem veitt væri og kynni að verða veitt af hálfu sveitarfélagsins við hreinsun fráveituvatns. Gæti sú skipan sem kveðið var á um í gjaldskránni ekki staðist án viðhlítandi lagaheimildar sem fullnægði kröfum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Umboðsmaður ítrekaði að með 87. gr. vatnalaga hefði löggjafinn tekið afstöðu til þess hvaða heimild sveitarfélag hefði til að innheimta sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði við byggingu og lagningu holræsa og þar með hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva. Taldi hann að þessi aðstaða leiddi jafnframt til þess að skýra yrði aðrar lagaheimildir til töku gjalda fyrir þjónustu sem sveitarfélög veita á þessu sviði til samræmis. Þannig væri það hverju sinni háð túlkun á lagaheimild til töku þjónustugjalda hvort og þá í hvaða mæli heimilt væri að taka tillit til kostnaðar við byggingu mannvirkja sem nýtt væru til að veita þjónustuna þegar fjárhæð þjónustugjalds er ákveðin. Í því efni nægði ekki lagaheimild eins og var í 18. gr. laga nr. 81/1988 enda gæti svo víðtæk almenn heimild ein og sér og án stuðnings í efnisreglum viðkomandi laga ekki fullnægt þeim kröfum sem gera yrði samkvæmt lögmætisreglunni til gjaldtökuheimildar. Var það niðurstaða umboðsmanns að án sérstakrar og skýrrar lagaheimildar gæti sveitarfélag ekki á grundvelli þjónustugjaldaheimildar í 25. gr. laga nr. 7/1998, áður 18. gr. laga nr. 81/1988, ákveðið að innheimta fasta fjárhæð af öllum húsum og húshlutum, sem virt eru fasteignamati, án tillits til umfangs og eðlis fráveituvatns frá eigninni til að standa eingöngu straum af kostnaði við byggingu mannvirkja fyrir útrásir og dælu- og hreinsistöðva fráveituvatns.

Var það niðurstaða umboðsmanns að Reykjanesbæ hefði ekki verið heimilt að krefja A um gjald vegna hreinsunar fráveituvatns með þeim hætti sem gert var á grundvelli gjaldskrár nr. 184/1997. Hefði úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli A því ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar á ný kæmi fram ósk um það frá honum og að afgreiðslu á málinu yrði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 11. apríl 2001, leitaði A til mín og kvartaði yfir álagningu gjalds vegna fráveituframkvæmda og úrskurði nefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, dags. 30. mars 2001, þar sem hafnað var kröfum hans um afturköllun gjaldskrár nr. 184/1997 frá 10. mars 1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ og kröfum um endurgreiðslu þegar greiddra gjalda.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 27. mars 2002.

II.

Málavextir eru þeir að með kæru, dags. 24. nóvember 2000, kærði A til umhverfisráðuneytisins innheimtu Reykjanesbæjar á gjaldi sem ýmist var kallað „gjald vegna fráveituframkvæmda“ eða „gjald vegna hreinsunar á fráveituvatni“. Var erindi hans framsent úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með bréfi, dags. 30. nóvember 2000. Um er að ræða gjald að fjárhæð 6000 kr. sem lagt er einu sinni á ári á eigendur húsa eða húshluta í Reykjanesbæ sem virt er fasteignamati. Benti A í kæru sinni á að engin hreinsun ætti sér stað á fráveituvatni auk þess sem engar fráveituframkvæmdir væru í gangi í Reykjanesbæ. Taldi A álagninguna ekki standast lög enda hefði Reykjanesbær ekki heimild til að innheimta annað en skatta eða gjöld fyrir veitta þjónustu. Auk þess gagnrýndi A að gjaldið tæki ekki mið af verðmæti eignar eða tekjum manna og væri því lagt á íbúa með öðrum hætti en ef framkvæmdirnar hefðu verið fjármagnaðar með holræsagjaldi eða útsvari. Taldi A að ef um lögboðnar framkvæmdir væri að ræða bæri að greiða þær af útsvarstekjum bæjarins.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir upplýsingum frá Reykjanesbæ með bréfi, dags. 3. janúar 2001. Í bréfi bæjarstjóra Reykjanesbæjar, dags. 16. janúar 2001, kom fram að gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ hefði verið samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 4. febrúar 1997 og staðfest af umhverfisráðuneytinu 10. mars 1997. Gjaldið rynni í sérstakan sjóð og væri ekki notað til annarra hluta en fráveituframkvæmda. Þá væri gert ráð fyrir að gjaldið félli niður þegar framkvæmdum lyki. Fram kom að framkvæmdir væru í fullum gangi og að þegar hefði verið framkvæmt eða samið um framkvæmdir fyrir 272.000.000 kr. af 1.150.000.000 kr. sem væri áætlaður heildarkostnaður. Samtals hefði verið innheimt 100.000.720 kr. á árunum 1997-2000. A fékk með bréfi nefndarinnar, dags. 22. janúar 2001, tækifæri til að koma að athugasemdum sínum og nýtti hann sér það með bréfi, dags. 1. febrúar 2001, og krafðist þess að gjaldskráin yrði afturkölluð og að honum yrðu endurgreidd þegar greidd gjöld. Í bréfi bæjarstjóra Reykjanesbæjar, dags. 12. mars 2001, kom fram að þegar stofnkostnaður væri að fullu greiddur félli gjaldið niður og yrði rekstrarkostnaður þá greiddur af álögðu holræsagjaldi.

Úrskurðarnefndin felldi úrskurð í málinu 30. mars 2001. Var niðurstaða nefndarinnar svohljóðandi:

„Í 7. gr. l. nr. 45/1998 segir m.a.: „Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim er falin að lögum.“ Síðan segir: „Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.“

í 9. gr. s.l. segir m.a.: „Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.“

í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir: „Auk tekna skv. 1. gr. (þ.e. fasteignaskatta, framlaga úr jöfnunarsjóði og útsvars) hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.“

Í 25. gr. l. nr. 7/1998 segir ennfremur að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur sem fram koma í þeim og er heimilt m.a. að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og sorps svo og gjaldtökuleyfi, leigu eða veitta þjónustu. Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda en þau gjöld mega ekki vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.

18. gr. l. nr. 81/1988 sem gilti um hluta þessa tímabils sem mál þetta snýst um er eins að mestu leyti en þó var skylt skv. því ákvæði að leyta samþykktar ráðherra á gjaldskrá og var það gert en sú samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem var grundvöllur gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ var staðfest af umhverfisráðherra þann 10. mars 1997.

Ekki er um það deilt að eitt af verkefnum hvers sveitarfélags er að annast skólp- og fráveitur sbr. t.d. X. kafla l. nr. 15/1923 og 1. nr. 53/1995. Í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 sem sett er með stoð í l. nr. 81/1988 (nú l. nr. 7/1998) er einnig að finna ýmis ákvæði sem leggja ríkar skyldur á sveitarfélög um meðferð skólps og annars úrgangs og m.a. með tilliti til krafna skv. reglugerðinni mun Reykjanesbær hafa ákveðið að endurnýja fráveitur bæjarins eða eins og segir í 2. gr. þeirrar gjaldskrár sem staðfest var 10. mars 1997: „Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.“

Skv. framanrituðum lagatilvitnunum er það álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að Reykjanesbær hafi lagaheimildir til að haga gjaldtöku eins og gert er í samræmi við staðfesta gjaldskrá frá 10. mars 1997 og engin þau atriði hafi komið fram sem benda til að ekki hafi verið gætt réttra sjónarmiða og aðferða við setningu gjaldskrárinnar.“

III.

Ég ritaði úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, bréf, dags. 2. maí 2001, þar sem ég óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að úrskurðarnefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn er málið varðaði. Sérstaklega óskaði ég að nefndin upplýsti um eftirfarandi atriði:

„1. Hvort nefndin telji að ákvæði 1. sbr. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 geymi fullnægjandi lagastoð fyrir framangreindri gjaldtöku. Er þá einkum vísað til þess að í 1. mgr. 25. gr. er mælt fyrir um „gjaldtöku fyrir leyfi, leigu og veitta þjónustu“, en í úrskurðinum kemur fram að gjaldið sé til „greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja.“ Í 2. gr. gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ frá 10. mars 1997 segir jafnframt: „Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.“

2. Hvort nefndin hafi kannað þá útreikninga sem lágu til grundvallar framangreindri gjaldskrá og forsendur þeirra. Óska ég jafnframt eftir þeim gögnum sem nefndin hefur með höndum um það efni.“

Svarbréf úrskurðarnefndar barst mér 2. júlí 2001. Í bréfinu segir m.a.:

„I. Í V kafla úrskurðar nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 er vísað til l. nr. 45/1998 um verkefni, ákvörðunarvald og tekjustofna sveitarfélaga svo og til l. nr. 4/1995 þar sem upp eru taldir tekjustofnar sveitarfélaga. Síðar er vísað til X kafla vatnalaga nr. 15/1923 sbr. 86., 87. og 91. gr. laganna en í gildi er reglugerð um holræsagjöld í Reykjanesbæ frá 10. júlí 1996 sett með stoð í 91. gr. l. nr. 15/1923.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað að leita eftir samþykkt gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns til umhverfisráðuneytis og þá eftir 18. gr. l. nr. 81/1988 (nú 25. gr. l. nr. 7/1998) og í bréfi yðar er sérstaklega spurt, hvort nefndin telji lagagreinina veita fullnægjandi lagastoð fyrir gjaldtöku skv. gjaldskránni frá 10. mars 1997, en í bréfinu eru orðin „veitta þjónustu“ sérstaklega undirstrikuð og vísað til úrskurðar nefndarinnar þar sem tekið er upp orðrétt orðalag í erindi Reykjanesbæjar frá 12. mars 2000 um „greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja“ og orðalags í 2. gr. gjaldskrárinnar þar sem er nefnt að gjaldið eigi að standa straum af kostnaði við „hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ“.

Það er álit nefndarinnar að þrátt fyrir framangreinda framsetningu í orðavali, sem að nokkru er óheppileg, þá felist í 5. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 fullnægjandi heimild til gjaldtöku skv. gjaldskránni frá 10. mars 1997. Rök nefndarinnar eru þau að fráveitumannvirki í Reykjanesbæ hafa verið rekin í áratugi og hefur á þeim tíma margoft komið til viðhalds og endurnýjunar á lögnum og öðrum mannvirkjum í þeim tilgangi að viðhalda þeirri þjónustu sem fráveitukerfinu er ætlað að veita íbúum Reykjanesbæjar.

Þær framkvæmdir sem nú standa yfir í Reykjanesbæ eru vissulega í stærra lagi þar sem endurnýjun og viðhaldi nú er m.a. ætlað að mæta nýjum og auknum kröfum sem til fráveitumannvirkja eru gerðar. Niðurstaða nefndar skv. 31. gr. l. 7/1998 varð því að þær framkvæmdir, sem nú standa yfir í Reykjanesbæ og eru fjármagnaðar skv. gjaldskrá frá 10. mars 1997, séu liður í þeirri þjónustu Reykjanesbæjar að reka fráveitu fyrir íbúa bæjarins, og hafa hana í lagi og samkvæmt þeim kröfum um hollustuhætti og mengunarmál sem lög krefjast.

Annað mál er að heppilegra hefði verið fyrir Reykjanesbæ að nýta heimildir X kafla l. nr. 15/1923 og fá reglugerð um holræsagjöld í Reykjanesbæ frá 10. júlí 1996 hækkaða um þær fjárhæðir og í þann tíma sem nauðsynlegt er til að fjármagna þær framkvæmdir sem nú standa yfir, en í 87. gr. l. 15/1923 er ekki gerður greinarmunur á svonefndum stofnkostnaði og veittri þjónustu og því hefði mátt komast hjá því að þræta um þann vafa á lögmæti gjaldtöku, sem erindi [A] fjallar um.

II. Í annan stað er spurt í bréfi yðar hvort nefndin hefði kannað þá útreikninga sem lágu til grundvallar gjaldskránni frá 10. mars 1997. Því er til að svara að um þetta atriði var ekki deilt og nefndin ætlar að umhverfisráðuneytið hafi kannað þau atriði áður en til staðfestingar gjaldskrárinnar kom. Að öðru leyti vill nefndin vísa til mismunandi orðalags 31. gr. l. 7/1998 og niðurlagsákvæðis forvera þeirrar lagagreinar þ.e. 26. gr. l. 81/1988.“

Með bréfi, dags. 3. júlí 2001, gaf ég A kost á að koma að athugasemdum sínum við skýringar úrskurðarnefndarinnar og gerði hann það með bréfi, dags. 6. júlí 2001.

Ég sendi umhverfisráðherra bréf, dags. 10. september 2001, og greindi frá kvörtun A og úrskurði í máli hans. Óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að umhverfisráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té þau gögn er málið snerti. Sérstaklega óskaði ég þess að ráðuneytið upplýsti um eftirfarandi atriði:

„1. Hvort ráðuneytið telji að ákvæði 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, (nú 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir) hafi geymt fullnægjandi lagastoð fyrir framangreindri gjaldtöku. Í gjaldskrá nr. 184/1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ, kemur fram að gjaldið sé vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ en hreinsun fráveituvatns sé í samræmi við ákvæði mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994, með síðari breytingum. Þá segir enn fremur í 5. gr. gjaldskrárinnar: „Ofangreind samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar staðfestist hér með samkvæmt 18. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit ...“. Ég vek athygli á að samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 81/1988 er mælt fyrir um „gjaldtöku fyrir leyfi, leigu og veitta þjónustu“, en í úrskurði nefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 kemur fram að gjaldið sé til „greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja.“ Í 2. gr. gjaldskrárinnar segir jafnframt: „Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.“

2. Hvort ráðuneytið hafi kannað þá útreikninga sem lágu til grundvallar framangreindri gjaldskrá og forsendur þeirra. Óska ég jafnframt eftir þeim gögnum sem ráðuneytið hefur undir höndum um það efni.“

Mér barst svar umhverfisráðuneytisins 6. desember 2001. Í svarbréfi ráðuneytisins segir m.a.:

„1. Eins og fram kemur í bréfi yðar var gjaldskrá nr. 184/1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ staðfest af umhverfisráðuneytinu 10. mars 1997. Var hún sett með heimild í 18. gr. þágildandi laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Um er að ræða gjald sem ætlað er til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ, eins og fram kemur í 2. gr. gjaldskrárinnar. Markmiðið með framkvæmdum þessum er að uppfylla kröfur sem gerðar voru í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og í þágildandi mengunarvarnarreglugerð nr. 48/1994. Samkvæmt áðurnefndri 18. gr. laga nr. 81/1988 gátu heilbrigðisnefndir sett sér eigin heilbrigðissamþykktir um þætti sem ekki var fjallað um í heilbrigðisreglugerð, sbr. 2. gr. laganna, og mengunarvarnarreglugerð, sbr. 3. gr., eða til þess að gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en þar er gert (leturbreyting ráðuneytisins), m.a. um meðferð og eyðingu skolps og um gjaldtöku m.a. vegna veittrar þjónustu. Ráðuneytið telur gjaldskrána rúmast innan þessarar lagaheimildar með hliðsjón af eðli gjaldtökunnar, sem er að standa undir kostnaði við þá þjónustu Reykjanesbæjar að hreinsa fráveituvatn í sveitarfélaginu.

2. Ráðuneytið fór ítarlega yfir þá útreikninga sem lágu að baki gjaldskránni, enda ótvírætt hlutverk þess þar sem krafist var staðfestingar ráðuneytisins á slíkum gjaldskrám á þeim tíma. Af gögnum þeim sem fylgdu samþykktinni þegar hún var send ráðuneytinu til staðfestingar, má sjá að áætlaður heildarkostnaður við fráveitumannvirkin var 1.400 milljónir kr. Hlutur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var áætlaður um 700 milljónir. Gert var ráð fyrir að heildarupphæð fráveitugjaldsins næmi um 24 milljónum á ári. Kemur fram í bréfi Reykjanesbæjar til ráðuneytisins að ef gjaldið verði lagt á næstu tíu árin þá muni það standa undir áætluðum framkvæmdakostnaði að einum þriðja hluta. Ráðuneytið telur því ljóst að gjaldið nemi einungis hluta af kostnaði við hönnun og byggingu fráveitumannvirkjanna.

Gjaldið er lagt á hvert hús eða húshluta og er föst krónutala. Rökin að baki því eru þau að hvert hús er tengt holræsakerfi bæjarins, þaðan sem fráveituvatnið kemur og nýtur þannig góðs af fráveitumannvirkjunum. Öll hús sem tengjast holræsakerfi bæjarins nýta sér þannig þessa þjónustu og kostnaður við hönnun og gerð fráveitumannvirkja er að mestu sá sami án tillits til notkunar einstakra notenda.

Eins og fram kemur í 2. gr. gjaldskrárinnar rennur fráveitugjaldið í sérstakan sjóð og er það því sérgreint frá öðrum fjármunum sveitarfélagsins og skal einungis renna til framangreindra framkvæmda.“

Með bréfi umhverfisráðuneytisins fylgdi greinargerð bæjarstjóra Reykjanesbæjar vegna gjaldtökunnar sem móttekin var í ráðuneytinu 13. febrúar 1997, auk tveggja tillagna bæjarstjórnar að gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns. Þá fylgdu bréfinu fundargerðir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 21. janúar 1997 og 4. febrúar 1997 auk kostnaðaráætlunar verkefnisstjórnar frárennslismála í Reykjanesbæ, dags. 23. desember 1996.

A var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við svar ráðuneytisins, með bréfi, dags. 17. desember 2001.

IV.

1.

Í máli þessu er til úrlausnar hvort í 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. 6. gr. laga nr. 70/1995, um breyting á þeim lögum, og nú 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sé nægjanleg lagaheimild til þeirrar gjaldtöku af hálfu Reykjanesbæjar sem mælt var fyrir um í gjaldskrá nr. 184/1997 frá 10. mars 1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ. Tekið skal fram að samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu er Reykjanesbær eina sveitarfélagið þar sem ráðuneytið hefur staðfest slíka gjaldskrá á grundvelli þessarar lagaheimildar.

Ég tel í sjálfu sér ekki tilefni til þess að byggja á öðru en að holræsa- og fráveitumál séu meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, og minni þar á að í áðurgildandi sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 sagði í 7. tölulið 6. mgr. 6. gr. að meðal verkefna sveitarfélaga væru hreinlætismál, þar á meðal holræsalagnir.

Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þá segir í 2. mgr. stjórnarskrárákvæðisins að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarfélögum skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum og í 4. mgr. greinarinnar segir að sveitarfélögin skuli hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast. Í 1. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, segir að tekjustofnar sveitarfélaga séu fasteignaskattur, framlög úr Jöfnunarsjóði og útsvör en síðan segir í 2. gr. laganna að auk þessara tekna hafi sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o. fl. enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o. fl. „allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.“

Í framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og laga birtist sú meginregla að tekjuöflun sveitarfélaga eins og annarra opinberra aðila verður að byggjast á heimild í lögum óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu sem látin er í té. Séu slíkar lagaheimildir til staðar verður við beitingu þeirra að taka afstöðu til þess hversu víðtækar þær eru, þ.e. í hvaða tilvikum þær heimila töku gjalds og í hvaða mæli auk þess sem þörf kann að vera á að skýra saman þær lagaheimildir sem sveitarfélag hefur til gjaldtöku á sama starfssviði.

2.

Gerð og rekstur holræsa og lagna fyrir skolp eða það sem á síðari árum er farið að nefna fráveitur hefur lengi verið meðal verkefna sveitarfélaga.

Árið 1911 voru þannig sett lög nr. 42/1911, um gjöld til holræsa og gangstjetta í Reykjavík o.fl., og 1917 voru sett lög um sama efni á Akureyri. Síðan komu lög nr. 18/1920, um gjöld til holræsa og gangstjetta í kaupstöðum öðrum en Reykjavík og Akureyri. Öll voru þessi lög síðan að því leyti sem ákvæði þeirra lutu að holræsum felld úr gildi með vatnalögunum árið 1923.

Í vatnalögum nr. 15/1923 voru sett ýmis ákvæði um holræsi og eru þau enn í gildi lítið breytt. Þannig eru í X. kafla laganna margvísleg ákvæði um heimildir sveitarfélaga til að leggja holræsi til þess að taka við skolpi og afrennsli. Í 1. mgr. 87. gr. laganna er að finna svohljóðandi heimild til handa sveitarstjórnum til töku gjalds vegna holræsa:

„Bæjarstjórn er rjett að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorttveggja.“

Samkvæmt 2. mgr. 87. gr. vatnalaga má veita sérstaka ívilnun ef lóð er svo háttað að erfiðara er að koma skolpi eða afrennsli frá henni í holræsi en frá öðrum lóðum yfirleitt og sérstakt aukagjald má leggja ef skolp frá einhverri lóð er svo á sig komið að telja megi meiri útgjöld stafa eða munu stafa af því en öðru skolpi. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að eigandi lóðar ábyrgist holræsagjald og í 4. mgr. hennar er tekið fram að gjaldið skuli ákveða í reglugerð og megi taka það lögtaki þegar ráðherra hefur staðfest reglugerðina. Með 1. gr. laga nr. 137/1995, um breyting á vatnalögum nr. 15/1923, var ákvæði bætt við 87. gr. sem heimilar sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Ég minni á að ég hef meðal annars í áliti mínu í máli nr. 2584/1998 frá 30. desember 1999 fjallað um lagaheimild til töku holræsagjalds og efni stjórnvaldsfyrirmæla þar um.

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. vatnalaga leggur bæjarstjórn holræsi „svo, að lóðareigandi hver nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði, er lóð hans telst til, enda verður maður eigi krafinn um holræsagjald fyrr en svo er“. Reglugerðir allar um holræsi og holræsagjald, sem bæjarstjórn semur, skal send ráðherra til staðfestingar og að staðfestingu fenginni er reglugerðin lögmæt holræsareglugerð, sbr. 90. gr. vatnalaga. Í 2. mgr. 98. gr. vatnalaga segir að ákvæði þeirra laga um holræsi séu því ekki til fyrirstöðu að sett verði í byggingarsamþykktum og heilbrigðissamþykktum fyrirmæli um holræsi og fráræslu samkvæmt lögum um heimild til að gera slíkar samþykktir.

Af hálfu Reykjanesbæjar hefur framangreind heimild til að leggja á holræsagjöld verið notuð og nú er í gildi þar um reglugerð nr. 390/1996, sem staðfest var af félagsmálaráðuneytinu 10. júlí 1996. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar ber hverjum þeim, sem á hús eða húshluta í Reykjanesbæ eða leigir lóð í bænum við götu eða opið svæði, sem holræsi hefur verið lagt í, að greiða árlegt holræsagjald til bæjarsjóðs Reykjanesbæjar. Skal upphæð holræsagjaldsins vera 0,13% af fasteignamati íbúðarhúsa og lóða, og 0,36% af fasteignamati atvinnuhúsnæðis og lóða skv. lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.

Rétt er einnig að geta þess að sett hafa verið lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, og er markmið þeirra að stuðla að framkvæmdum við fráveitur sveitarfélaga með styrkveitingum.

Eins og að er vikið í 98. gr. vatnalaga nr. 15/1923 hafði það þá tíðkast að sett væru í heilbrigðissamþykktir fyrirmæli um holræsi og fráræslu samkvæmt heimild í lögum til að gera slíkar samþykktir. Við setningu vatnalaganna voru í gildi ákvæði laga nr. 64/1905 um efni heilbrigðissamþykkta. Síðar komu til lög nr. 35/1940, um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir, en samkvæmt þeim áttu heilbrigðisnefndir að fara með almennt heilbrigðiseftirlit, þ.e. eftirlit með hreinlæti og öðrum hollustuháttum. Semja átti sérstaka heilbrigðissamþykkt fyrir hvert sveitarfélag og áttu þar meðal annars að vera ákvæði um hreinlæti úti og inni, drykkjarvatn, frárennsli, salerni og sorphirðu. Ákvæði heilbrigðissamþykktar áttu að vera í sem fyllstu samræmi við ákvæði sérstakra laga og reglugerða um sama efni og aldrei vægari. Með lögum nr. 12/1969 var ákveðið að ráðherra setti heilbrigðisreglugerð fyrir allt landið en þó var sveitarfélögum heimilað að fá settar sérstakar heilbrigðissamþykktir sem viðauka með tilteknum takmörkunum. Þessi skipan mála hefur síðan haldist með tilkomu síðari laga á þessu sviði og þannig voru í 31. til 39. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 ákvæði um salerni og fráveitur. Var þar mælt fyrir um að heilbrigðisnefnd hefði eftirlit með öllum fráveitum og ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun eða óhollustu. Nú hefur umhverfisráðherra sett sérstaka reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, og er tekið fram í 33. gr. hennar að hún sé sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Þá kemur fram að reglugerðin er sett með hliðsjón af 13. tölulið XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 91/271/EBE, tilskipun 98/15/EB) og við gildistöku reglugerðarinnar falla úr gildi 31. – 34. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. Það er ljóst af ákvæðum þessara síðast nefndu reglugerða að kröfur um eftirlit, varnir gegn mengun frá fráveitum og hreinsun skolps hafa verið hertar á síðustu árum.

Eins og áður sagði hafði í lögum verið heimild fyrir sveitarfélög að setja sérstakar heilbrigðissamþykktir umfram það sem leiddi af ákvæðum landsreglugerðar. Þegar umhverfisráðherra staðfesti 10. mars 1997 gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ var svohljóðandi ákvæði í 1. til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. lög nr. 70/1995:

„Sveitarfélög geta sett sér eigin heilbrigðissamþykktir, um þætti sem ekki er fjallað um í heilbrigðisreglugerð, sbr. 2. gr., og mengunarvarnarreglugerð, sbr. 3. gr., eða til þess að gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en þar er gert.

Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:

1. Bann eða takmörkun hundahalds og annars gæludýrahalds.

2. Meðferð og eyðingu sorps og skolps.

3. Gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu.

4. Sérstakar ábyrgðartryggingar.

Upphæð gjalda skv. þessum kafla skal ákveðin í sérstakri gjaldskrá, sem ráðherra staðfestir. Skulu slík gjöld tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign í tvö ár eftir gjalddaga, sé leyfi, leiga eða þjónusta tengd notkun fasteignar.“

Þess skal getið að ákvæði þessu hefur verið breytt með 3. gr. laga nr. 59/1999 og það er nú í 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í upphafi ákvæðisins segir nú að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim „enda falli þau undir lögin.“ Þá er ekki lengur áskilið að ráðherra staðfesti gjaldskrá um gjöld sem sveitarfélag ákveður að leggja á samkvæmt þessari lagaheimild.

3.

Gjaldskrá nr. 184/1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ er svohljóðandi:

„1. gr.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er heimilt að leggja á og innheimta gjald vegna hreinsunar fráveituvatns af hverjum þeim sem á hús eða húshluta í Reykjanesbæ, sem virt er fasteignamati.

2. gr.

Af eigendum húsa eða húshluta, sem virt er fasteignamati, skal árlega innheimta gjald vegna hreinsunar fráveituvatns og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjaldið hefur lögtaksrétt og er tryggt með lögveðsrétti í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga þess. Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ. Hreinsun fráveituvatns er í samræmi við ákvæði mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994, með síðari breytingum.

3. gr.

Gjaldið skal vera kr. 6.000 á ári.

4. gr.

Gjaldið skal innheimt með fasteignagjöldum.

5. gr.

Ofangreind samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar staðfestist hér með samkvæmt 18. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og tekur gildi þegar við birtingu.“

Af hálfu úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 segir í skýringum til mín að það sé álit nefndarinnar að fullnægjandi heimild til gjaldtöku samkvæmt gjaldskránni felist í 25. gr. laga nr. 7/1998. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að þær framkvæmdir sem nú standi yfir í Reykjanesbæ og eru fjármagnaðar með umræddu gjaldi séu liður í þeirri þjónustu bæjarins að reka fráveitu fyrir íbúa bæjarins og hafa hana í lagi og samkvæmt þeim kröfum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem lög áskilja. Nefndin tekur fram í skýringum sínum að annað mál sé að heppilegra hefði verið fyrir Reykjanesbæ að nýta heimildir X. kafla laga nr. 15/1923 og fá reglugerð um holræsagjöld í Reykjanesbæ frá 10. júlí 1996 hækkaða um þær fjárhæðir og í þann tíma sem nauðsynlegt er til að fjármagna þær framkvæmdir sem nú standa yfir. Nefndin bendir á að í 87. gr. vatnalaga sé ekki gerður greinarmunur á svonefndum stofnkostnaði og veittri þjónustu.

Umhverfisráðuneytið bendir í svari sínu til mín á að markmiðið með þeim framkvæmdum sem umrætt gjald eigi að standa straum af sé að uppfylla kröfur sem gerðar hafi verið í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og í þágildandi mengunarvarnarreglugerð nr. 48/1994. Þá er vísað til orðalags 18. gr. laga nr. 81/1988 eins og það var við setningu gjaldskrár nr. 184/1997 og bent á að sveitarfélögum hafi verið heimilt að setja samþykktir til að gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en gert var í heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnarreglugerð meðal annars um meðferð og eyðingu skolps og um gjaldtöku vegna veittrar þjónustu. Telur ráðuneytið að gjaldskráin rúmist innan þessarar lagaheimildar með hliðsjón af eðli gjaldtökunnar, sem sé að standa undir kostnaði við þá þjónustu Reykjanesbæjar að hreinsa fráveituvatn í sveitarfélaginu.

4.

Í máli þessu reynir á hvort ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit um að sveitarfélögin geti sett sér eigin samþykktir og gert þar ítarlegri kröfur, og um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu, heimili að innheimt sé sérstakt gjald af húsum og húshlutum í sveitarfélaginu til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva vegna fráveituvatns (holræsa og skolps).

Ég minni á það sem áður sagði um breytingar á efni og orðalagi ákvæðis 22. gr. laga nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, síðar í 18. gr. laga nr. 81/1988, sbr. 6. gr. laga nr. 70/1995, og nú 25. gr. laga nr. 7/1998. Nú segir í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 að heimild sveitarfélaga til að setja sér eigin samþykktir og gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í reglugerðum settum samkvæmt lögunum sé háð því að þau atriði „falli [...] undir lögin“. Áður var þetta orðað með þeim hætti að sveitarfélögin gætu sett sér eigin heilbrigðissamþykkt um þætti sem ekki væri fjallað um í heilbrigðisreglugerð, sbr. 2. gr., og mengunarvarnarreglugerð, sbr. 3. gr., eða til þess að gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en þar væri gert. Ég tel að hvað sem líður orðalagi ákvæðisins fram að þeirri breytingu sem gerð var með lögum nr. 7/1998 verði að skýra þessa heimild sveitarfélaga til að gera ítarlegri kröfur og þá einnig um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu þannig að þar verði að vera um að ræða viðfangsefni og kröfur sem rúmast innan efnisákvæða laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Gjald það sem gjaldskrá fyrir hreinsun fráveituvatns í Reykjanesbæ nr. 184/1997 hljóðar um rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ, sbr. 2. gr. gjaldskrárinnar. Þegar umhverfisráðherra staðfesti gjaldskrána sagði í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem þá voru lög nr. 81/1988, að lögunum væri ætlað að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði sem á hverjum tíma eru tök á að veita og með markvissum aðgerðum skyldi vinna að þessu m.a. með því að tryggja sem best eftirlit með umhverfi, húsnæði og öðrum vistarverum, almennri hollustu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara og vernda þau lífsskilyrði, sem felast í ómenguðu umhverfi, hreinu lofti, úti og inni, og ómenguðu vatni. Í lögunum voru ekki sérstök ákvæði um holræsi, skolp eða frárennsli umfram annars vegar fyrirmæli í 6. tl. 2. mgr. 3. gr. um að í mengunarvarnarreglugerð skyldu vera almenn ákvæði um frárennsli og skolp og hins vegar var í 18. gr. heimild fyrir sveitarfélag til að setja sér eigin heilbrigðissamþykkt þar sem væru meðal annars ákvæði um meðferð og eyðingu sorps og skolps. Ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit höfðu og hafa ekki enn, sbr. nú lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að geyma efnisreglur um hvernig sveitarfélögum ber að standa að mannvirkjagerð við byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva fyrir fráveituvatn. Það er hins vegar ljóst að í samræmi við almenn ákvæði laganna þurfa sveitarfélög að haga uppbyggingu þessara mannvirkja þannig að gætt sé þeirra krafna sem lög og reglugerðir setja um verndun umhverfis og þá þannig að sveitarfélögin geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru af hálfu þeirra eftirlitsaðila sem lögin mæla fyrir um. Af því leiðir hins vegar ekki að án sérstakrar lagaheimildar geti sveitarfélag lagt gjald á t.d. eigendur fasteigna til að standa straum af kostnaði við að mæta þessum auknu kröfum.

Sú lagaheimild sem gjaldtakan er studd við í reglugerðinni hljóðar um að taka megi gjald fyrir veitta þjónustu. Það þarf því að leysa úr því hvort það að taka gjald í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva sem síðan á að nota til hreinsunar fráveituvatns samrýmist þessari heimild til töku þjónustugjalds. Þjónustugjald sem innheimt er af hálfu opinbers aðila er skilgreint sem greiðsla sem greiða þarf hinu opinbera fyrir sérgreint endurgjald sem látið er í té og er greiðslunni ætlað að standa straum að hluta eða öllu leyti af kostnaði við endurgjaldið. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar er ekki um það að ræða að innheimt sé af hálfu sveitarfélagsins gjald fyrir viðtöku á fráveituvatni til að mæta hreinsun þess sem slíks heldur er um að ræða sjálfstæða gjaldtöku til að standa straum af kostnaði við byggingu mannvirkja sem síðar eiga að nýtast til hreinsunar fráveituvatns.

Gjaldið er lagt á sem ákveðin krónutala, kr. 6.000 á ári, á hús eða húshluta, sem virt er fasteignamati, án tillits til stærðar, verðmætis og notkunar eignar og þar með umfangs fráveituvatns og þörf fyrir hreinsun þess frá þeirri eign sem leiðir til gjaldtökunnar. Gjaldtakan er þannig ekki framkvæmd á grundvelli raunverulegrar notkunar eða veittrar þjónustu. Það skortir því á að bein tengsl standi á milli skyldu til að greiða umrætt gjald og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem veitt er eða kann að verða veitt af hálfu sveitarfélagsins við hreinsun fráveituvatns. Af þeim sökum gat sú skipan sem kveðið var á um í gjaldskrá nr. 184/1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ ekki staðist án viðhlítandi lagaheimildar sem fullnægði kröfum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Ég vísa í þessu efni meðal annars til dóms Hæstaréttar frá 5. nóvember 1998 í málinu nr. 50/1998 (H 1998:3460).

Ég tel rétt vegna framangreindrar niðurstöðu að ítreka það sem komið hefur fram hér að framan um að sveitarfélögum er í 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923 veitt heimild til að leggja „gjald á hús og lóðir“ til að standa straum af holræsakostnaði. Gjaldið má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða hvort tveggja. Þarna er beinlínis í lagaheimildinni til töku holræsagjalds kveðið á um að gjaldið sé óháð þeirri þjónustu sem greiðandi nýtur í hverju tilfelli. Löggjafinn hefur þannig beint tekið afstöðu til þess hvaða heimild sveitarfélag hafi til að innheimta sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði við byggingu og lagningu holræsa og þar með hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva vegna þess sem í dag er stundum nefnt fráveituvatn en hefur áður í löggjöfinni verið nefnt skolp og lagnir vegna þess holræsi.

Þessi aðstaða leiðir jafnframt til þess að skýra verður aðrar lagaheimildir til töku gjalda fyrir þjónustu sem sveitarfélög veita á þessu sviði til samræmis. Þannig er það hverju sinni háð túlkun á lagaheimild til töku þjónustugjalda hvort og þá í hvaða mæli heimilt er að taka tillit til kostnaðar við byggingu mannvirkja sem nýtt eru til að veita þjónustuna þegar fjárhæð þjónustugjalds er ákveðin. Ég tel að í því efni nægi ekki lagaheimild eins og var í 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, um að sveitarfélag væri í eigin heilbrigðissamþykkt heimilt að gera „ítarlegri kröfur“ um einstök atriði en gert var í landsreglugerðum enda getur svo víðtæk almenn heimild ein og sér og án stuðnings í efnisreglum viðkomandi laga ekki fullnægt þeim kröfum sem gera verður samkvæmt lögmætisreglunni til gjaldtökuheimildar.

Í ákvæði 18. gr. laganna er jafnframt veitt heimild til gjaldtöku vegna „veittrar þjónustu.“ Ég hef áður lýst þeim skilyrðum sem þurfa að vera uppfyllt við töku þjónustugjalda um sérgreiningu endurgjalds til handa þeim sem greiðir gjaldið. Þær reglur gera einnig kröfu til þess að leiða megi ákveðið samhengi milli umfangs veittrar þjónustu og þjónustugjaldsins. Ég tel að án sérstakrar og skýrrar lagaheimildar geti sveitarfélag ekki á grundvelli þjónustugjaldaheimildarinnar í 25. gr. laga nr. 7/1998 , áður 18. gr. laga nr. 81/1988, sbr. lög nr. 70/1995, ákveðið að innheimta fasta fjárhæð af öllum húsum og húshlutum, sem virt eru fasteignamati, án tillits til umfangs og eðlis fráveituvatns frá eigninni til að standa eingöngu straum af kostnaði við byggingu mannvirkja fyrir útrásir og dælu- og hreinsistöðva fráveituvatns. Þar skortir á þau tengsl sem þurfa að vera annars vegar milli þeirrar þjónustu sem veitt er hverju sinni og hins vegar fjárhæðar gjaldsins og gjaldskyldunnar.

Vegna tilvísunar úrskurðarnefndarinnar um að heppilegra hefði verið fyrir Reykjanesbæ að nýta sér heimildir X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 tek ég fram að hvað sem líður hugsanlegum möguleikum sveitarfélagsins á því að afla fjár til umræddra framkvæmda við útrásir og dælu- og hreinsistöðvar breytir það engu um að innheimta gjalds með þeim hætti sem ákveðinn var með gjaldskrá nr. 184/1997 var ólögmæt.

V.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða mín að Reykjanesbæ hafi ekki verið heimilt að krefja A um gjald vegna hreinsunar fráveituvatns með þeim hætti sem gert var á grundvelli gjaldskrár nr. 184/1997. Ég tel því að úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, frá 30. mars 2001 í máli A hafi ekki verið í samræmi við lög. Það eru tilmæli mín til nefndarinnar að hún taki mál þetta til meðferðar að nýju, komi fram ósk um það frá A, og afgreiðslu á máli hans verði þá hagað í samræmi við sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu. Jafnframt hef ég ákveðið að kynna umhverfisráðuneytinu þetta álit mitt, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem ég tel samkvæmt framansögðu að meinbugir séu á þeirri gjaldskrá sem ráðuneytið staðfesti 10. mars 1997.

VI.

Í tilefni af áliti mínu beindi ég fyrirspurnum til umhverfisráðuneytisins og til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 í bréfum dags. 11. febrúar 2003. Í bréfi mínu til ráðuneytisins óskaði ég upplýsinga um hvort af þess hálfu hefði eitthvað verið aðhafst í tilefni af áliti mínu. Í svari umhverfisráðuneytisins, dags. 28. febrúar 2003, kemur fram að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafi mál A verið tekið til meðferðar að nýju af hálfu úrskurðarnefndarinnar og væri úrskurðar að vænta fljótlega. Á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni telji ráðuneytið ekki tilefni til aðgerða af þess hálfu. Samkvæmt upplýsingum sem starfsmaður minn aflaði um það leyti sem ég lauk frágangi skýrslunnar í septemberbyrjun var úrskurðarnefndin þá að leggja lokahönd á úrskurð sinn.

VII.

Þann 9. september 2003 barst mér afrit úrskurðar úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 í máli A. Niðurstaða nefndarinnar var sú að Reykjanesbæ hefði ekki verið heimilt að innheimta gjald til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ á grundvelli 25. gr. laga nr. 7/1998. Í úrskurði sínum tekur nefndin jafnframt fram að hún líti svo á að það heyri ekki undir nefndina að afturkalla gjaldskrá sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra eða að úrskurða um endurgreiðslur meintra oftekinna gjalda.

Með bréfi til umhverfisráðherra, dags. 20. febrúar 2004, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort eitthvað hefði verið aðhafst af hálfu ráðuneytisins í tilefni af áliti mínu. Í svarbréfi umhverfisráðuneytisins, dags. 16. mars 2004, er vísað til framangreinds úrskurðar úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Þá segir svo í bréfinu:

„Í kjölfar úrskurðarins, eða þann 16. september 2003, sendi ráðuneytið bréf til Reykjanesbæjar. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið sé sammála niðurstöðu úrskurðarnefndar og Umboðsmanns Alþingis í málinu og telur því óhjákvæmilegt að fella framangreinda gjaldskrá úr gildi. Í bréfi Reykjanesbæjar til ráðuneytisins þann 19. september s.á. kemur fram að bæjarráð Reykjanesbæjar hafi þann 18. september samþykkt að fella gjaldið niður. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins var samþykkt bæjarráðs staðfest á fundi bæjarstjórnar þann 7. október s.á.

Þann 28. október 2003 barst ráðuneytinu meðfylgjandi erindi [A] þar sem óskað er eftir að Umhverfisráðuneytið taki málið upp og sjái til þess að Reykjanesbær endurgreiði allt gjaldið með vöxtum og dráttarvöxtum. Erindi þessu hefur nú verið svarað sbr. meðfylgjandi bréf ráðuneytisins. Þar kemur fram að ráðuneytið telur, með vísan til 1. gr. sveitarstjórnarlaga, að það falli utan verksviðs þess að fjalla um eða hlutast til um hugsanlega endurgreiðslu fráveitugjaldsins. Ráðuneytið telur því að máli þessu sé lokið af hálfu ráðuneytisins.“