Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11968/2022)

Kvartað var yfir töfum á málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands vegna umsóknar um bætur vegna aukaverkana í kjölfar bólusetningar.  

Þar sem fyrir lá nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem lagt var fyrir sjúkratryggingar að hraða afgreiðslu málsins var að svo stöddu ekki tilefni fyrir umboðsmann til að spyrjast fyrir um hvað liði meðferð málsins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. desember sl. yfir töfum á málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands vegna umsóknar yðar um bætur vegna aukaverkana í kjölfar bólusetningar.

Í kjölfar samskipta yðar við starfsmann umboðsmanns senduð þér umboðsmanni tölvubréf 31. janúar sl. þar sem þér upplýstuð um að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði 25. janúar sl. kveðið upp úrskurð um að dráttur á afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á ofangreindri umsókn yðar hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá lagði nefndin fyrir stofnunina að hraða afgreiðslu máls yðar. Í tölvubréfinu lýsið þér og þeim áformum yðar að vekja athygli Sjúkratrygginga Íslands á úrskurðinum og óska þess að afgreiðslu málsins verði flýtt.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu máls hefur sú leið verið farin að spyrjast fyrir hjá umræddu stjórnvaldi hvað líði meðferð og afgreiðslu málsins. Hefur sá háttur verið hafður á í því augnamiði að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur raunin oft verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á töfum og upplýsingar um hvenær ráðgert sé að mál verið afgreitt. Þar sem fyrir liggur nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem lagt er fyrir Sjúkratryggingar Íslands að hraða afgreiðslu máls yðar, er ekki tilefni fyrir umboðsmann að svo stöddu til að spyrjast fyrir um hvað líði meðferð málsins. Er hér m.a. haft í huga að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála er bindandi fyrir Sjúkratryggingar.

Loks tek ég fram að þegar niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands liggur fyrir getið þér séuð þér ósáttir við niðurstöðu stofnunarinnar beint stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar getið þér leitað til mín á nýjan leik teljið þér tilefni til.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef frekari tafir verða á málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands í kjölfar ofangreinds úrskurðar, getið þér leitað til mín með kvörtun þar að lútandi.