Samningar.

(Mál nr. 12016/2023)

Kvartað var riftun stofnunar á húsaleigusamningi við einkahlutafélag.

Þar sem ágreiningurinn var einkaréttarlegs eðlis féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. janúar sl. fyrir hönd A ehf. er lýtur að riftun Vinnumálastofnunar 15. nóvember sl. á húsaleigusamningi stofnunarinnar við félagið um skrifstofuhúsnæði fyrir starfsemi hennar. Af kvörtun yðar fæ ég ráðið að hún lúti að ágreiningi um lögmæti þeirrar riftunar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur. Þá leiðir af 1. mgr. 3. gr. laganna að starfssvið umboðsmanns er að jafnaði afmarkað við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Ágreiningur A ehf. og Vinnumálastofnunar lýtur að lögmæti riftunar á húsaleigusamningi um atvinnuhúsnæði en um slíkan ágreining fer eftir ákvæðum samningsins sem og  þeim réttarreglum sem um slíka samninga gilda, m.a. húsaleigulaga nr. 36/1994, eftir því sem við á. Er sá ágreiningur einkaréttarlegs eðlis og fellur af þeim sökum utan starfssviðs umboðsmanns. Eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar.

Ég bendi yður þó á að greini aðila leigusamnings á við gerð og/eða framkvæmd leigusamnings geta þeir, einn eða fleiri, leitað atbeina kærunefndar húsamála sem kveður upp skriflegan úrskurð svo fljótt sem auðið er og jafnan innan tveggja mánaða frá því að erindi barst henni, sbr. 1. mgr. 85. gr. húsaleigulaga. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi gagnvart málsaðilum en heimilt er að bera úrskurðina undir dómstóla innan átta vikna frá það að úrskurður var kveðinn upp, sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Getur A ehf. því freistað þess að beina erindi til kærunefndar húsamála, telji félagið ástæðu til þess.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.