Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12025/2023)

Kvartað var yfir óbeinum reykingum í fangelsinu á Litla-Hrauni.  

Þar sem athugasemdunum hafði ekki verið beint til Heilbrigðiseftirlitsins á Suðurlandi og eftir atvikum heilbrigðisráðuneytisins voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar o.fl. 24. janúar sl. yfir því að þér og fleiri, reyklausir, þurfið að þola óbeinar tóbaksreykingar í fangelsinu Litla-Hrauni. Í kvörtun yðar er vísað til afstöðu yðar til reykinga og neikvæðra áhrifa sem þér teljið hinar óbeinu reykingar hafi á yður.

Í III. kafla laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, er fjallað um takmörkun á tóbaksreykingum. Samkvæmt 6. tölulið 1. mgr. 10. gr. laganna eru tóbaksreykingar með öllu óheimilar í fangelsum. Þó er heimilt að leyfa reykingar í fangaklefum en skylt er að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum fangaklefum. Í reglugerð nr. 326/2007, um takmarkanir á tóbaksreykingum, er bann við tóbaksreykingum í fangelsum áréttað og þess getið að bannið taki til allra húsakynna fangelsis með þeirri undantekningu að fangar megi reykja í klefum sínum, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Í 9. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um að þar sem tóbaksreykingar eru leyfðar samkvæmt reglugerðinni skuli tryggð fullnægjandi loftræsting að mati eftirlitsaðila þannig að komið sé í veg fyrir að tóbaksreykur berist til reyklausra svæða. Þá segir m.a. í 18. gr. laga nr. 6/2002 að heilbrigðisnefndir hafi eftirlit með því að virt séu ákvæði III. kafla laganna og er framangreind 10. gr. í þeim kafla. Yfirstjórn mála samkvæmt lögunum er svo í höndum heilbrigðisráðherra, sbr. 4. gr. þeirra.  

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að á meðal skilyrða þess að umboðsmaður Alþingis taki mál til athugunar er að endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu liggi fyrir. Þetta leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Með hliðsjón af þessu getið þér freistað þess að beina athugasemdum yðar til heilbrigðiseftirlits Suðurlands og eftir atvikum heilbrigðis­ráðuneytisins að fengnum viðbrögðum þess, teljið þér að ekki sé með fullnægjandi hætti staðið að tóbaksvörnum í fangelsinu Litla-Hrauni.

Loks tek ég fram að síðastliðið haust heimsótti ég ásamt starfsmönnum embættisins fangelsið Litla-Hraun. Var heimsóknin liður í svokölluðu OPCAT-eftirlit embættisins, en það felst í reglubundnum heimsóknum á staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Nú er unnið að skýrslu vegna heimsóknarinnar og munu þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar verða hafðar til hliðsjónar við þá vinnu.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða um að leiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun tel ég ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu og lýk því meðferð málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu ofangreindra stjórnvalda getið þér leitað til mín a nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.