Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12030/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á kvörtun sem beint var til Barnaverndarstofu í september 2021.  

Stofnunin hafði upplýst viðkomandi reglulega um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins og í ljósi þeirra skýringa sem umboðsmaður hafði fengið vegna stöðunnar taldi hann ekki ástæðu til aðhafast sérstaklega í þessu máli. Ekki lægi annað fyrir en tafirnar væru almennar og stöfuðu af aðstæðum stofnunarinnar en væri ekki bundnar við þetta mál.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 31. janúar sl., fyrir hönd A, yfir töfum á afgreiðslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á kvörtun sem þér beinduð til Barna­verndarstofu 20. september 2021.

Með kvörtun yðar fylgdi bréf Barnaverndarstofu 14. október 2021 þar sem fram kom að kvörtunin hefði verið móttekin og rétt væri að benda yður á að gera mætti ráð fyrir því að athugun máls á grundvelli kvartana til stofunnar tæki nokkurn tíma eða tíu til tólf mánuði. Með tölvubréfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála 1. apríl sl. var yður tilkynnt að stofnunin hefði tekið við útistandandi kvörtunarmálum Barnaverndarstofu. Vegna talsverðs málafjölda væri áætlað að stofnunin svaraði erindi yðar innan næstu sex mánaða. Með bréfi sömu stofnunar 5. júlí sl. var yður tilkynnt að vænta mætti svars vegna kvörtunar yðar í síðasta lagi 31. janúar sl. Með tölvubréfi stofnunarinnar 30. janúar sl. var yður tilkynnt um að umfang þeirra kvörtunarmála sem fluttust frá Barnaverndarstofu til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála hafi reynst mun meira en búist var við og þess sé nú vænst að unnt verði að afgreiða erindið fyrir 31. mars nk.

Með vísan til kvörtunar yðar vil ég taka fram að vegna annarra mála sem ég hef haft til umfjöllunar, er mér kunnugt um þær tafir sem að undanförnu hafa almennt verið á meðferð mála hjá stofnuninni og hef ég af því tilefni komið tilteknum ábendingum á framfæri við stofnunina. Ég tel hins vegar í ljósi þeirra skýringa sem ég hef fengið fyrir þeirri stöðu sem uppi er hvað varðar málshraða ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega í máli yðar að svo stöddu en ekki liggur annað fyrir en að tafir innan málaflokksins séu almennar og stafi af að­stæðum stofnunarinnar en ekki bundnar við mál yðar sérstaklega.

 Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.