Samgöngumál.

(Mál nr. 12031/2023)

Spurt var hvort dóttir á höfuðborgarsvæðinu gæti nýtt þann afslátt sem móður sem býr nyrðra stæði til boða með svokallaðri Loftbrú.

Það er ekki hlutverk umboðsmanns að svara almennum fyrirspurnum en hann benti viðkomandi á að beina erindinu til Vegagerðarinnar og eftir atvikum innviðaráðuneytisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 10. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til erindis yðar 31. janúar sl. þar sem fram kemur að þér ferðist reglulega til Húsavíkur með flugi þar sem móðir yðar er búsett. Í erindinu spyrjist þér fyrir um hvort þér getið fengið að nýta þann afslátt sem móðir yðar á rétt til og er veittur þeim sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu af flugfargjöldum innanlands, þ.e. svonefnda Loftbrú. Af erindinu verður ráðið að móðir yðar ferðist lítið og muni ekki koma til með að nýta afsláttinn sem henni stendur til boða af flugfargjöldum. Í erindinu segir að um fyrirspurn sé að ræða en ekki kvörtun til umboðsmanns.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Í ljósi þess hvernig erindi yðar er framsett eru því ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að ég fjalli frekar um það.

Vegna kvörtunar yðar tel ég þó rétt að vekja athygli yðar á eftirfarandi. Verkefnið Loftbrú byggist á flugstefnu sem kynnt var samhliða samgönguáætlun samkvæmt þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034 og þingsályktunartillögu um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024 sem samþykktar voru á Alþingi sumarið 2020. Í 2. tölulið 7. gr. laga nr. 120/2012, um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, segir að Vegagerðin skuli annast umsjón með styrkveitingum vegna almenningssamgangna. Á grundvelli þessa ákvæðis var Vegagerðinni falið að sinna fyrrgreindu verkefni. Í tengslum við rækslu verkefnisins hafa verið gefnir út notendaskilmálar fyrir Loftbrú, sem eru aðgengilegir á vefslóðinni www.loftbru.is. Í skilmálunum, sbr. 4.3. gr. þeirra, segir m.a. að óheimilt sé að nýta afslátt sem Loftbrú veitir fyrir aðra en þann sem úthlutað hefur verið afsláttarkóða samkvæmt skilmálunum.

Ég bendi yður því á þann möguleika að beina fyrirspurn og athugasemdum yðar til Vegagerðarinnar og eftir atvikum innviðaráðuneytisins að fenginni afstöðu stofnunarinnar, en það fer með yfirstjórn Vegagerðarinnar og málefna Loftbrúar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna erindis yðar.