Málsmeðferða og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 12033/2023)

Kvartað var yfir því að hve miklu marki vísað er til Staðlaráðs Íslands í byggingarreglugerð, með hliðsjón af því að greiða þarf fyrir aðgang að stöðlunum.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir innviðaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 30. janúar sl. yfir því að hve miklu marki vísað er til staðla Staðlaráðs Íslands í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með hliðsjón af því að greiða þurfi fyrir aðgang að stöðlunum.

Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til innviðaráðuneytisins, sem fer m.a. með húsnæðis- og mannvirkjamál og hefur innviðaráðherra m.a. það hlutverk að setja téða reglugerð sbr. 60. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki. Þar sem þér getið freistað þess að leita til innviðaráðuneytisins með athugasemdir yðar brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða um að leiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun tel ég ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu og lýk því meðferð þess með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Teljið þér yður enn rangindum beittan að fengnum viðbrögðum ráðuneytisins, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.