Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12034/2023)

Kvartað var yfir að beiðni um dagsleyfi frá fangelsi hefði verið synjað.  

Þar sem ákvörðunin hafði ekki verið kærð til dómsmálaráðuneytisins voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. febrúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 31. janúar sl. yfir því að beiðni yðar til Fangelsismálastofnunar um dagsleyfi frá fangelsi 28. febrúar nk. hafi verið synjað.

Ákvarðanir forstöðumanns fangelsis um dagsleyfi á grundvelli V. kafla laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 95. gr. sömu laga innan þriggja mánaða frá því tilkynnt var um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að þetta er rakið hér er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Þar sem ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þér hafið leitað til ráðuneytisins vegna framangreindrar ákvörðunar eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég taki hana til nánari skoðunar að svo stöddu.

Í ljósi framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér leitið til ráðuneytisins og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.