Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11978/2022)

Kvartað var yfir því að Skatturinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefðu ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum með viðunandi hætti.  

Ráðuneytið upplýsti að Skatturinn væri með málið í vinnslu og gert væri ráð fyrir að starfshópur skilaði tillögum eigi síðar en 30. apríl 2023. Ekki varð því betur séð en brugðist hefði verið við ábendingunum og því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 21. desember 2022 f.h. A hf. sem lýtur að því að Skatturinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum félagsins þess efnis að tilteknir framleiðendur drykkjarvara í skilaskyldum umbúðum standi ekki skil á skýrslum vegna þeirra til stjórnvalda eða félagsins og greiði ekki lögboðin gjöld, sem lög geri enn fremur ráð fyrir að renna skuli til þess. Að mati umbjóðanda yðar hafa stjórnvöld, þ.e. Skatturinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið, en einnig umhverfis- og auðlindaráðuneytið, ekki brugðist við téðum ábendingum með viðunandi hætti.

Í tilefni af kvörtuninni var fjármála- og efnahagsráðuneytinu ritað bréf 2. febrúar sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvort ráðuneytið hefði erindi umbjóðanda yðar til meðferðar og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Í svari ráðuneytisins 10. febrúar sl. kemur m.a. fram að í kjölfar ábendinga frá félaginu hafi fulltrúar ráðuneytisins fundað með félaginu og Skattinum 26. október 2021 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Skatturinn skyldi vinna málið áfram. Mun Skatturinn í kjölfarið hafa upplýst ráðuneytið um að komið hafi verið á fót starfshópi um um endurskoðun á framkvæmd álagningar og eftirlits með skilagjaldi og áfengisgjaldi. Gert sé ráð fyrir því að hópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 30. apríl 2023.

Af svörum ráðuneytisins verður ekki betur séð en að það hafi í samræmi við yfirstjórnar- og eftirlitshlutverk sitt með ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 90/2003, brugðist við téðum ábendingum félagsins og léð atbeina sinn að því að hafin er vinna að úrbótum sem enn er yfirstandandi. Í ljósi þessa tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.