Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11993/2023)

Kvartað var yfir frávísun úrskurðarnefndar um upplýsingamál á kæru.  

Nefndin lagði til grundvallar að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá viðkomandi fyrirtæki og taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu né heldur þá afstöðu nefndarinnar að félaginu væri ekki skylt að veita aðgang að gögnum sem varpað gætu ljósi á þær upplýsingar sem óskað hefði verið eftir þar sem þær væru undanþegnar rétti almennings til gagna. Þótt ekki væri ástæða til að gera athugasemdir benti umboðsmaður á þann möguleika að afmarka upplýsingabeiðni sína með öðrum hætti en gert hefði verið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. febrúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. desember 2022 er lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 19. sama mánaðar í máli nr. 1119/2022. Samkvæmt úrskurðarorði var kæru yðar 6. júlí þess árs vísað frá, en hún laut að beiðnum yðar 7. mars og 7. júní sama ár um aðgang að upplýsingum um starfsmannaveltu hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. Að beiðni umboðsmanns bárust gögn málsins frá nefndinni 13. janúar sl.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram sú meginregla að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. til 10. gr. laganna. Í frumvarpi því er varð að lögunum segir að það sé skilyrði að gagn sé fyrirliggjandi hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram (sjá þskj. 223 á 141. löggjafarþingi 2012-2013, bls. 41-42.). Í 6. gr. laganna er mælt fyrir um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti en samkvæmt 4. tölulið greinarinnar tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. síðastnefndu greinarinnar tekur aðgangsréttur að gögnum um málefni starfsmanna, sem lögin taka til, ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti sé átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Til þessa teljist t.d. mál er lúta að starfslokum.

Samkvæmt gögnum málsins átti úrskurðarnefndin í samskiptum við Herjólf ohf. í tilefni af kæru yðar til nefndarinnar. Lutu þau meðal annars að því hvort samanteknar upplýsingar um starfsmannaveltu væru fyrirliggjandi hjá Herjólfi ohf. Í ljósi svara félagsins lagði nefndin til grundvallar að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá því í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu nefndarinnar. Þá tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar að félaginu væri ekki skylt að veita yður aðgang að gögnum, sem varpað gætu ljósi á þær upplýsingar sem þér óskuðuð eftir, þar sem um væri að ræða upplýsingar sem undanþegnar væru rétti almennings til gagna samkvæmt áðurnefndri 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þótt ég telji ekki ástæðu til að gera athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar að þessu leyti tel ég rétt að vekja athygli yðar á þeim möguleika að afmarka upplýsingabeiðni yðar með öðrum hætti. Í því sambandi bendi ég á að í 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga eru tilgreindar þær upplýsingar um málefni starfsmanna lögaðila sem falla undir lögin sem veita ber að almenningi aðgang að, t.d. um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölulið 4. mgr. greinarinnar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.