Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11994/2023)

Kvartað var yfir ætluðum brotum á lögbundnum hvíldartíma og hámarksvinnutíma á sjúkrahúsi sem og ágreiningi um útreikning á kjarasamningsbundnum frítökurétti. Jafnframt að erindi vegna þessa hefði verið beint til Vinnueftirlitsins í janúar 2022 en því hefði ekki verið svarað. 

Vinnueftirlitið greindi frá því að fyrir mistök hefði erindið hvorki verið skráð í málaskrá stofnunarinnar né verið svarað. Úr því hefði nú verið bætt og því ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar hvað þetta snerti. 

Mál sem varða samningsbundin réttindi ríkisstarfsmanna eru oft þannig vaxin að við túlkun ákvæða kjarasamninga getur m.a. þurft að líta til þess hvernig þau hafa verið framkvæmd, túlkunar eldri ákvæða um sama efni, svo og venja sem kunna að hafa myndast á umræddu sviði. Við úrlausn slíkra mála kann að vera nauðsynlegt að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunar­gildi slíkra gagna. Umboðsmaður hefur því talið rétt að fjalla almennt ekki um slík mál heldur sé það hlutverk dómstóla. Af kvörtuninni yrði ráðið að hún lyti fyrst og fremst að samningsbundnum rétti til frítöku og ætluðum frávikum frá lágmarkshvíldartíma og hámarksvinnutíma og því eðlilegt að Félagsdómur fjallaði um málið eða eftir atvikum almennir dómstólar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. febrúar 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. er lýtur að ætluðum brotum á lögbundnum hvíldartíma og hámarksvinnutíma á ´X sem og ágreiningi um útreikning á kjarasamningsbundnum frítökurétti yðar. Í kvörtuninni kemur jafnframt fram að þér hafið beint erindi til Vinnueftirlits ríkisins 23. janúar 2022 vegna þessa en því erindi hafi ekki verið svarað.

  

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar var Vinnueftirlitinu ritað bréf 19. janúar sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi yðar hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Svar Vinnueftirlitsins barst 6. febrúar sl. en þar kemur fram að vegna mistaka hafi erindi yðar hvorki verið skráð í málaskrá stofnunarinnar né því verið svarað. Stofnunin harmi þessi mistök og hafi erindi yðar nú verið svarað. Þar hafi yður verið greint frá þeim farvegi sem erindi yðar hafi verið lagt í og að ábending yðar hafi verið tekin til skoðunar.

Í ljósi þess sem fram kemur í svari stofnunarinnar tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að viðbragðsleysi stofnunarinnar við erindi yðar.

  

2

Um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma er fjallað í IX. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar segir í 1. mgr. 53. gr. að vinnutíma skuli hagað þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg. Í kafla 4.6 í Kjarasamningi Læknafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra er að finna slíkt samkomulag um frávik frá hvíldartíma. Þar er m.a. mælt fyrir um útreikning frítökuréttar, sem myndast við frávik frá lágmarkshvíldartíma og hámarksvinnutíma.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu sé að ræða milli umboðsmanns og dómstóla og mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Í því sambandi má nefna að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þá segir í c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Þá tek ég einnig fram að mál sem varða samningsbundin réttindi ríkisstarfsmanna eru oft þannig vaxin að við túlkun ákvæða kjarasamninga getur m.a. þurft að líta til þess hvernig þau hafa verið framkvæmd, túlkunar eldri ákvæða um sama efni, svo og venja sem kunna að hafa myndast á umræddu sviði. Við úrlausn slíkra mála kann að vera nauðsynlegt að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunar­gildi slíkra gagna. Ég hef því talið rétt að fjalla almennt ekki um slík mál heldur verði það að vera hlutverk dómstóla.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, dæmir Félagsdómur í málum sem rísa milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Í 4. mgr. 27. gr. laganna er mælt fyrir um að stéttarfélög reki mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Ef stéttarfélag neitar að höfða mál fyrir félagsmenn sína er aðila heimilt að höfða mál sjálfur fyrir Félagsdómi en hann skal þá setja fram sönnun um synjun viðkomandi félags fyrir forseta dómsins áður en stefna er gefin út, sbr. 5. mgr. 27. gr. sömu laga.

Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti fyrst og fremst að samningsbundnum rétti yðar til frítöku og ætluðum frávikum frá lágmarkshvíldartíma og hámarksvinnutíma. Að því marki sem uppi kann að vera ágreiningur um túlkun og inntak ákvæða téðs kjarasamnings tel ég eðlilegra að Félagsdómur fjalli um mál yðar, eða eftir atvikum almennir dómstólar, kjósið þér að fylgja því frekar eftir. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort ástæða sé til að bera málið undir dómstóla.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.