Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12026/2023)

Kvartað var yfir kröfu um góða tungumálakunnáttu í talaðri og ritaðri íslensku og ensku í starfsauglýsingu frá Akraneskaupstað.  

Ekki varð ráðið að viðkomandi hefði sótt um starfið og því ekki skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. janúar sl. Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti að auglýsingu velferðar- og mannréttindasviðs Akranes­kaupstaðar í starf verkefnastjóra í móttöku flóttafólks. Virðist kvörtun yðar nánar tiltekið lúta að þeirri kröfu að umsækjendur um starfið þurfi að hafa góða tungumálakunnáttu „í talaðri og ritaðri íslensku og ensku“.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðs­mann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur allt að einu leitt til þess að mál sé tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda þó ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið sótt um framan­greint starf. Því verður ekki séð að kvörtun yðar lúti að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist sérstaklega að yður eða varði beinlínis hagsmuni yðar umfram aðra. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Ég tel þó rétt að benda yður á að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer með félags- og fjölskyldumál, þar á meðal málefni innflytjenda og flóttafólks og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt 27. og 33. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga. Í 1. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að ráðherra beri ábyrgð á að til staðar sé móttökukerfi fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd og getur það eftir atvikum falið t.d. sveitarfélagi rekstur hennar. Þér getið því freistað þess að koma athugasemdum yðar á framfæri við sveitarfélagið og eftir atvikum ráðuneytið að fengnum viðbrögðum þess.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.