Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 12038/2023)

Kvartað var yfir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar uppfyllti ekki skyldu til miðlunar upplýsinga og leiðbeininga til þeirra sem ættu rétt á þjónustu. 

Kvörtunin fól fyrst og fremst í sér almenna athugasemd við að velferðarsvið sinnti ekki nægilega þeirri frumkvæðisskyldu sem lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, kveða á um. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 2. febrúar sl. yfir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar uppfylli ekki skyldu til miðlunar upplýsinga og leiðbeininga til þeirra sem eiga rétt á þjónustu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðs­mann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Samkvæmt framangreindu er það ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur allt að einu leitt til þess að mál sé tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda þó ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is

Af kvörtun yðar verður ráðið að í henni felist fyrst og fremst almenn athugasemd við að velferðarsvið borgarinnar sinni ekki nægilega þeirri frumkvæðisskyldu sem  32. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, mælir fyrir um. Því verður ekki séð að kvörtun yðar lúti að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist sérstaklega að yður eða syni yðar eða varði beinlínis hagsmuni yðar umfram aðra. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.