Útlendingar.

(Mál nr. 12057/2023)

Kvartað var yfir tilkynningu Útlendingastofnunar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann.  

Af kvörtuninni varð ráðið að málið væri enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 9. febrúar sl. yfir því að Útlendingastofnun hafi með bréfi 12. janúar sl. tilkynnt yður um hugsanlega brottvísun og endurkomubann á grundvelli a-liðar 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga. Í bréfinu var yður veittur kostur á að koma á framfæri skriflegri greinargerð sem lögmaður yðar mun hafa gert fyrir yðar hönd.

Í téðum a-lið 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016 segir m.a. að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi sem hefur ótímabundið dvalarleyfi ef hann hefur afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og átti sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi. Þá segir í 7. gr. sömu laga að ákvarðanir Útlendingastofnunar og lögreglunnar samkvæmt lögunum séu kæranlegar til kærunefndar útlendingamála

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinni í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur endanlega verið til lykta leitt í stjórnsýslunni. Af kvörtuninni verður ráðið að mál yðar sé enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun og af þeim sökum brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu.

Þá er þess getið í kvörtun yðar að umsókn yðar um ríkisborgararétt sem þér lögðuð fram árið 2018 sé enn óafgreidd af hálfu Útlendingastofnunar og takið þér fram að þér óskið þess að henni verði vísað til Alþingis. Ég ræð að með því vísið þér til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, þar sem segir að Útlendingastofnun sé ávallt heimilt að vísa umsókn um ríkisborgararétt til ákvörðunar Alþingis sem eftir atvikum veiti umsækjanda ríkisborgararétt með lögum. Þá er í 6. gr. laganna fjallað um heimild Alþingis til að veita ríkisborgararétt með lögum. Þar sem ég fæ ekki betur séð en að umsókn yðar sé enn til meðferðar hjá stofnuninni eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að því marki sem hún kann að lúta að málsmeðferð Útlendingastofnunar eða þann farveg sem umsókn yðar hefur verið lögð í, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ég vek þó athygli yðar á því að þér getið freistað þess að leggja sjálfir fram umsókn til Alþingis um ríkisborgararétt í samræmi við framangreint. Loks bendi ég yður á að ef þér teljið meðferð umsóknar yðar hafa dregist óhæfilega getið þér leitað til mín sérstaklega vegna þeirra.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni endanlegri niðurstöðu ofangreindra stjórnvalda getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.