Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12051/2023)

Kvartað var yfir því að dómsmálaráðuneytið hefði ekki afgreitt erindi frá því í mars árið áður í tengslum við nauðungarsölu á bifreið.  

Ekki varð ráðið að viðkomandi hefði ítrekað erindi sitt við ráðuneytið og að svo stöddu því ekki tilefni fyrir umboðsmann til að bregðast við.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. febrúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. janúar sl. yfir því að dómsmálaráðuneytið hafi enn ekki afgreitt á erindi yðar frá 18. mars sl. í tengslum við nauðungarsölu á tilgreindri bifreið. Kvörtun yðar fylgdi afrit af umræddu tölvubréfi til dómsmálaráðuneytisins.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir yfir því að dráttur hafi orðið á afgreiðslu stjórnvalda á erindum hefur almennt verið gengið eftir því að viðkomandi, sem ber kvörtun fram, leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvalds með ítrekun og því gefið færi á því að bregðast við ef rétt reynist að erindi hafi ekki verið afgreitt á eðlilegum hraða eða þá gefa viðkomandi upplýsingar um hver eðlilegur afgreiðslutími er og hvenær vænta megi afgreiðslu erindisins.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið ítrekað erindi yðar. Verði frekari tafir á meðferð erindisins getið þér, að undangenginni ítrekun, leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. 

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.