Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11814/2022)

Kvartað var yfir ráðningu kennara við Flensborgarskóla og ekki hefði verið gætt jafnræðis milli umsækjenda.  

Ein af kröfum sem fram komu í auglýsingu um starfið var að umsækjandi hefði lokið kennaranámi og öðlast kennsluréttindi. Það hafði viðkomandi ekki gert þótt gögn málsins bentu til að stutt gæti verið í það. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu skólans.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 3. mars 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 17. ágúst sl. yfir ákvörðun Flensborgarskóla um ráðningu í starf stærðfræðikennara við skólann, sem þér sóttuð um. Kvörtunin lýtur að því að í ráðningarferlinu hafi umsókn yðar verið vanmetin og ekki hafi verið gætt jafnræðis milli umsækjenda. Meðal annars vísið þér til þess að yður hafi ekki boðist viðtal og sá sem ráðinn var búi ekki yfir sérhæfðri hæfni í stærðfræði.

Með bréfum til Flensborgarskóla 24. ágúst, og 26. október og 9. desember sl. var óskað eftir afriti af gögnum málsins ásamt nánari upplýsingum og skýringum á þar tilgreindum atriðum. Svör og gögn bárust með bréfum skólans 4. október, 30. nóvember og 15. desember sl. Með bréfi 12. janúar sl. var yður gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör skólans. Athugasemdir yðar bárust 22. sama mánaðar.

   

II

1

Ég legg þann skilning í kvörtun yðar að hún lúti að efnislegu mati á því hvaða umsækjandi var talinn hæfastur til að sinna auglýstu starfi. Athugasemdir yðar að þessu leyti eru þó í grunninn afmarkaðar við að þér teljið yður hafa uppfyllt hæfnikröfur sem gerðar voru í auglýsingu og því átt að koma til frekara mats af hálfu skólans. Þá liggur fyrir að þér voruð ekki á meðal þeirra umsækjenda sem var boðið í starfsviðtal og hafið þér gert sérstakar athugasemdir við það. Í ljósi þessa hefur athugun mín lotið að því hvernig staðið var að ákvörðun Flensborgarskóla um að ljúka ráðningarmálinu gagnvart yður.

Stjórnvöldum ber við ráðningar í opinber störf að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Að íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðunina ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða slík sjónarmið allt að einu að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta um starfshæfni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem ákveður hvaða umsækjanda skuli ráða í starf, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvaða starfsmenn hefðu átt að koma til frekara mats og eftir atvikum boða í starfsviðtal heldur að fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun Flensborgarskóla að þessu leyti hafi verið í samræmi við lög.

  

2

Í auglýsingu um starfið voru hæfnikröfur tilgreindar sem hér segir: 

Leitað er að einstaklingi sem uppfyllir kröfur um menntun og hæfni til kennslu á framhaldsskólastigi samkv. lögum nr. 95/20[19] og hefur reynslu af kennslu eða vinnu með ungu fólki. Faglegur metnaður er mikilvægur ásamt frumkvæði í starfi og jákvæðu hugarfari. Góð samskipta- og skipulagshæfni er mikilvæg ásamt áreiðanleika og stundvísi. Þá er góð tölvufærni einnig mikill kostur í starfi.

Þá var tekið fram að umsókn skyldi fylgja starfsferilskrá ásamt kynningarbréfi, afrit af prófskírteinum og námsferlum auk leyfisbréfs.

Í bréfi Flensborgarskóla 15. desember sl. kemur fram að fyrsti þáttur í mati á umsækjendum hafi verið yfirferð umsókna þar sem kannað var hvort krafan um leyfisbréf væri uppfyllt. Segir þar að með umsókn yðar hafi ekki fylgt leyfisbréf til staðfestingar kennararéttinda en þess í stað hafi verið vottorð um fyrirhugaða brautskráningu frá Háskóla Íslands, nánar tiltekið af námsleið í menntun framhaldsskólakennara til meistaraprófs. Fyrir liggur að þér og aðrir sem ekki fullnægðuð þessari kröfu komu ekki til frekara mats.

Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn málsins fæ ég ekki annað ráðið en að við ákvörðun um það hvaða umsækjendur komu til frekara mats hafi farið fram samanburður á grundvelli þeirra krafna og sjónarmiða sem fram komu í auglýsingu starfsins. Í því sambandi athugast að almennt hefur umboðsmaður ekki gert athugasemdir við það fyrirkomulag, sem gjarnan er viðhaft þegar margir sækja um starf, að mat sé lagt á umsóknir og ferilskrár út frá hlutlægum viðmiðum og í fram­haldinu séu þeir boðaðir í viðtöl sem fullægja þeim kröfum og koma best út úr því mati enda séu þau málefnaleg og í eðlilegum tengslum við það starf sem verið er að ráða í.  

Svo sem rakið hefur verið hér að framan var ein þeirra hæfnikrafna sem fram komu í auglýsingu um starfið að umsækjandi uppfyllti skilyrði laga nr. 95/2019, um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og hefði því lokið kennaranámi og öðlast kennsluréttindi, sbr. 12. gr. laganna. Fyrir liggur að umsóknarfrestur um starfið var til 16. maí 2022 og að mat á umsóknum fór fram í kjölfar þessa, sem lauk með ákvörðun um ráðningu sem birt var 14. júní s.á. Ekki er um það deilt að á þeim tíma höfðuð þér enn ekki brautskráðst og þar með ekki fengið útgefið leyfisbréf en í umsóknargögnum lýstuð þér því að þér áformuðuð brautskráningu og öflun leyfisbréfs fyrir lok júnímánaðar síðastliðins árs sem mun hafa gengið eftir.

Í skýringum Flensborgarskóla hefur komið fram að umrædd krafa um kennsluréttindi hafi verið fortakslaus og skólinn ekki talið unnt að taka tillit til þess hvort umsækjandi væri við það að ljúka námi. Í því sambandi er m.a. vikið að því að það sé ákveðinni óvissu háð hvort áform umsækjanda um fyrirhugaða útskrift standist og áhersla sé lögð á að ganga frá ráðningum kennara sem fyrst enda séu gjarnan sömu umsækjendur að sækja um störf í fleiri en einum skóla samtímis og því nokkur samkeppni um starfskrafta þeirra.

Í ljósi framangreindra skýringa og þegar litið er til eðlis starfsins eins og því er lýst í auglýsingu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athuga­semdir við að Flensborgarskóli hafi gert umrædda hæfnikröfu enda verður hún að teljast málefnaleg og innan þess svigrúms sem almennt verður að játa stjórnvöldum við þessar aðstæður. Af því tilefni tek ég jafnframt fram að þegar tiltekin skilyrði hafa verið gerð að almennum hæfisskilyrðum í auglýsingu, svo sem háttar til í máli þessu, er nauðsynlegt að umsækjandi fullnægi þeim skilyrðum þegar starfið er veitt og er það stjórnvaldsins að ganga úr skugga um hvort svo sé. Telji stjórnvaldið vafa leika á því hvort svo sé getur því borið að leiðbeina viðkomandi um að leggja fram frekari upplýsingar og gögn í því skyni að upplýsa málið að þessu leyti, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hvað sem því líður tel ég að ekki sé útilokað að við tilteknar aðstæður geti verið heimilt að veita umsækjanda starf sem er við það að ljúka námi eða öðlast tilskilin réttindi sem gerð hafa verið að slíku skilyrði í auglýsingu um starf eða sem leiðir af lögum. Það kann t.d. að koma til greina þegar ljóst þykir að viðkomandi muni að öllum líkindum fullnægja umræddu hæfisskilyrði við upphaf starfs. Gangi það hins vegar ekki eftir telst viðkomandi almennt ekki fullnægja almennum hæfisskilyrðum til þess að gegna starfinu og getur það leitt til þess að stjórnvaldið verði að grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart honum, eftir atvikum á grundvelli viðeigandi ákvæða laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og almennra reglna stjórnsýsluréttarins. Að gættum þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan og þess svigrúms sem játa verður stjórnvöldum að þessu leyti tel ég því ekki unnt að líta svo á að stjórnvaldi sé skylt að taka til greina umsókn frá umsækjanda sem svo háttar til um.

Í ljósi alls framangreinds og þar sem óumdeilt er að þér höfðuð ekki formlega lokið námi yðar þegar þér sóttuð um starfið og umsókn yðar var metin tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat skólans að þér uppfylltuð ekki téð skilyrði um menntun. Af því leiðir jafnframt að ég tel mig ekki hafa forsendur til athugasemda við þá ákvörðun skólans að umsókn yðar kæmi yðar kæmi ekki til frekara mats og að boða yður ekki til viðtals.

Í því tilliti skal bent á að opinber auglýsing á starfi, þar sem fram koma upplýsingar um þau meginatriði sem munu ráða vali í starfið, á að gefa umsækjendum kost á að leggja fram í umsókn og meðfylgjandi gögnum þær upplýsingar sem þeir telja að skipti máli við mat á því hvort þeir koma til greina í starfið og innbyrðis samanburð milli umsækjenda að þessu leyti. Starfsviðtali er í eðli sínu ætlað að afla viðbótarupplýsinga umfram það sem kemur fram í umsókn og til þess að meta nánar atriði sem talin eru geta skipt máli við val milli þeirra sem komið hafa best út eftir yfirferð og frummat umsókna. Þannig hefur ekki verið talið leiða af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að stjórnvöldum sé ávallt skylt að gefa umsækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sjálfum sér í starfsviðtölum eða afla á annan hátt frekari upplýsinga um starfshæfni. Þörf á viðtali eða frekari upplýsingum, t.d. umsögnum meðmælenda, til að uppfylla kröfur rannsóknarreglunnar ræðst þar af leiðandi af því hvaða upplýsinga er talið nauðsynlegt að afla til að málið sé nægjanlega upplýst með tilliti til þeirra sjónarmiða sem veitingarvaldshafinn hefur ákveðið að byggja á við mat sitt á umsóknum. Liggi þegar fyrir að umsækjandi fullnægi ekki hlutlægu hæfisskilyrði er almennt ekki tilefni til að gera athugasemdir við að stjórnvald hafi ekki aflað viðbótarupplýsinga um hann, hvort sem verið hefði með viðtölum eða öðrum hætti.

 

III 

Með vísan til þess sem að framan greinir og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.