Sektir.

(Mál nr. 11964/2022)

Kvartað var yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði á því ekki hefði verið gefið til kynna með fullnægjandi hætti að um vistgötu hefði verið að ræða. Auk þess væru upplýsingar um hámarkshraða á borgarvefsjá misvísandi.  

Af myndum sem bárust frá Reykjavíkurborg varð ráðið að bifreiðinni hefði verið lagt á svæði sem væri afmarkað sem vistagata. Ekki var því tilefni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 14. desember sl. yfir stöðubrotsgjaldi sem Bíla­stæðasjóður Reykjavíkur lagði á yður 10. nóvember sl. fyrir að hafa lagt tilgreindri bifreið við Bryggjugötu í Reykjavík utan merktra bifreiðastæða í andstöðu við 2. mgr. 9. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í kvörtun yðar byggið þér einkum á því að ekki sé gefið til kynna með fullnægjandi hætti að um vistgötu sé að ræða auk þess sem upplýsingar um hámarkshraða á borgarvefsjá séu misvísandi.

Í tilefni af kvörtun yðar var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 19. desember sl. þar sem óskað var eftir öllum gögnum málsins. Gögn málsins bárust með bréfi 21. sama mánaðar.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. umferðarlaga skal vistgata afmörkuð með sérstökum merkjum sem tákna vistgötu. Þá má ekki leggja skráningarskyldum ökutækjum í slíkri götu nema á merktum stæðum. Í a-lið 1. mgr. 109. gr. laganna segir að leggja megi á gjald vegna brota á ákvæðum 2. mgr. 9. gr. þeirra.

Vegna kvörtunar yðar tek ég fram að í 19. gr. reglugerðar nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, segir að umferðarmerki skuli sett þannig að þau sjáist greinilega, að jafnaði hægra megin við veg miðað við akstursstefnu. Af myndum, sem eru á meðal þeirra gagna sem bárust frá Reykjavíkurborg, verður ráðið að bifreiðinni [...] hafi verið lagt á Bryggjugötu á svæði sem afmarkað er sem vistgata með umferðarmerki sem staðsett er við innakstur á horni Geirsgötu og Bryggjugötu. Þá verður ekki séð að bifreið yðar hafi verið lagt í merktu stæði. Að þessu virtu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

Þá tel ég ekki tilefni til að fjalla um þann þátt kvörtunar yðar er snýr að því að svonefnd Borgarvefsjá endurspegli ekki réttilega hámarkshraða við Bryggjugötu þar sem í sjánni sé hann tilgreindur sem 30 kílómetrar á klukkustund enda þótt gatan sé merkt sem vistgata. Í því sambandi tek ég fram að í svörum Reykjavíkurborgar til yðar 5. desember sl. í tilefni af síðari beiðni yðar um endurskoðun gjaldsins kemur fram að vegna athugasemda yðar hafi ábendingu um framangreint misræmi verið komið til viðeigandi starfsmanns.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.