Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12002/2023)

Kvartað var yfir Vinnueftirlitinu og úrskurðarnefnd um upplýsingamál vegna ákvörðunar Vinnueftirlitsins að veita viðkomandi ekki upplýsingar um hvort stofnuninni hefði borist kvörtun vegna framkomu hans á vinnustað og ef svo væri í hvaða farveg málið hefði verið lagt af hálfu stofnunarinnar. Úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðunina. 

Umboðsmaður fór yfir ákvæði laga og reglugerða um hlutverk og skyldur Vinnueftirlitsins við þær aðstæður sem lýst var í málinu og taldi ekki tilefni til að gera athugsemdir við þá afstöðu nefndarinnar að Vinnueftirlitinu væri óheimilt að veita þær upplýsingar sem beðið hefði verið um.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. janúar sl. sem beinist að Vinnueftirlitinu og úrskurðarnefnd um upplýsingamál og lýtur að þeirri ákvörðun Vinnueftirlitsins að veita yður ekki upplýsingar um hvort stofnuninni hafi borist kvörtun vegna framkomu yðar á vinnustað, og ef svo væri, í hvaða farveg málið hafi verið lagt af hálfu stofnunarinnar. Með úrskurði 16. nóvember sl í máli nr.  1108/2022 staðfesti úrskurðarnefnd um upplýsingamál framangreinda ákvörðun Vinnueftirlitsins

  

II

1

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns Alþingis með kvörtun, sem hlaut málsnúmerið 10666/2020 í málaskrá umboðsmanns, er laut að fyrri úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 910/2020 þar sem sambærileg ákvörðun Vinnueftirlitsins um að afhenda yður ekki framangreindar upplýsingar var staðfest. Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtun yðar með bréfi 15. september 2020. Þar kom m.a. fram að Vinnueftirlitið starfi á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Lögin geri ekki ráð fyrir því að Vinnueftirlitið taki ákvarðanir í málum einstakra starfsmanna heldur beinist eftirlit og ákvarðanir stofnunarinnar að viðkomandi atvinnurekanda. Því njóti sá sem komi kvörtun á framfæri og, eftir atvikum, sá sem kvörtun kann að beinast að ekki aðildar að stjórnsýslumáli á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvorki við móttöku slíkrar kvörtunar af hálfu stofnunarinnar né þegar kvörtun verður stofnuninni tilefni til þess að fara í eftirlitsheimsókn á viðkomandi vinnustað. Það stjórnsýslumál sem kunni að hefjast beinist því að atvinnurekandanum sem njóti þá eftir atvikum aðilastöðu samkvæmt stjórnsýslulögum.

     

2

Í kvörtun yðar sem nú er til umfjöllunar, svo og samskiptum yðar við Vinnueftirlitið og úrskurðarnefndina sem henni fylgdu, er því haldið fram að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið reistur á réttum forsendum. Í því sambandi bendið þér á að umrædd kvörtun til Vinnueftirlitsins hafi lotið að ætluðu einelti af yðar hálfu sem sé annars eðlis en tilkynning um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustað að öðru leyti, s.s. í tengslum við öryggismál á vinnustað. Við slíkar aðstæður eigi sá sem tilkynning beinist að að fá færi á að koma sínum sjónarmiðum og, eftir atvikum, andmælum á framfæri.

  

3

Vegna framangreindra sjónarmiða í kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt 1. gr. fyrrgreindra laga nr. 46/1980 er tilgangur þeirra að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu, sbr. a-lið greinarinnar. Þá sé með þeim leitast við að tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur, ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits, sbr. b-lið greinarinnar.

Samkvæmt 13. gr. laganna hvílir sú almenna skylda á atvinnurekanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, er samkvæmt 13. gr. hennar sett með stoð í ákvæðum laganna, nánar tiltekið 37. gr., 38. gr., 65. gr., 65. gr. a., og 66. gr. þeirra. Í þeim lagaákvæðum er fjallað um ábyrgð atvinnurekanda á því að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sérstakt áhættumat með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi svo og áætlun um heilsuvernd. Í téðri reglugerð er að finna skilgreiningu á þeirri háttsemi sem telst vera einelti, sbr. 3. gr. hennar. Þá er í III. kafla reglugerðarinnar fjallað um skyldur atvinnurekenda, svo sem um hvernig bregðast á við berist kvörtun um einelti.

Þar er m.a. mælt fyrir um skyldu atvinnurekanda að sporna við einelti á viðkomandi vinnustað, m.a. með því að bregðast við í samræmi við áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, berist atvinnurekanda kvörtun af slíkum toga og með gerð áhættumats. Samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar hefur Vinnueftirlitið eftirlit með framkvæmd hennar, sbr. einnig 82. gr. laga nr. 46/1980. Þar segir í 1. málslið 1. mgr. að Vinnueftirlitið skuli fylgjast með að atvinnurekendur, sem lögin taka til, stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsmenn sína í starfi. Framkvæmd eftirlits Vinnueftirlitsins er nánar lýst í 2-10. mgr. 82. gr. en af 9. mgr. ákvæðisins leiðir að eftirlit stofnunarinnar að þessu leyti getur leitt til þess að hún beini skriflegum fyrirmælum til atvinnurekanda um úrbætur á vinnustað.

Af framangreindu leiðir að aðkoma Vinnueftirlitsins að málum sem falla undir ákvæði reglugerðar nr. 1009/2015, t.d. eineltismál, er sama marki brennd og þegar um tilkynningar af öðrum toga er að ræða og vikið var að í kafla II.1. Þannig er það ekki hlutverk stofnunarinnar að rannsaka og staðreyna hvort sú háttsemi eða framkoma starfsmanns, sem kann að koma fram í kvörtun, hafi átt sér stað eða ekki. Beinist eftirlit og ákvarðanir Vinnu­eftir­litsins vegna vanbúnaðar á vinnustöðum, þ. á m. þegar kemur að aðgerðum til að sporna gegn einelti, að viðkomandi atvinnu­rekanda og þeim skyldum sem á honum hvíla. Við þær aðstæður nýtur sá er kvörtun beinist  að ekki aðildar að stjórnsýslumáli á grund­velli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvorki við móttöku slíkrar kvörtunar af hálfu stofnunarinnar vegna aðstæðna á vinnustað né þegar kvörtun verður stofnuninni tilefni til þess að fara í eftirlitsheimsókn á viðkomandi vinnustað. Beinist það stjórnsýslumál sem kann að hefjast að atvinnurekendanum sem nýtur þá eftir atvikum aðilastöðu sam­kvæmt stjórnsýslulögum.

  

4

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1108/2022 er rakið að téð ákvörðun Vinnueftirlitsins hafi m.a. byggst á 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980, um þagnarskyldu starfsmanna Vinnueftirlitsins en ákvæðið hljóðar svo:  

Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins eru bundnir þagnarskyldu skv. X.  kafla stjórnsýslulaga. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins eru bundnir þagnarskyldu um allar upplýsingar er varða umkvartanir til stofnunarinnar, þ.m.t. nafn þess sem beinir umkvörtun til stofnunarinnar. Umkvörtun helst þótt látið sé af starfi. gögn sem hafa að geyma slíkar upplýsingar eru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.

Það hafi verið mat úrskurðarnefndarinnar að 2.-4. málsliður ákvæðisins feli í sér sérstaka þagnarskyldureglu. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga takmarki almenn ákvæði laga um þagnarskyldu ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Af því leiði hins vegar að sérstök þagnarskylduákvæði geti komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda. Þá kemur fram að í athugasemdum við frumvarp þeirra laga sem færðu þagnarskylduákvæði 2. mgr. 83. gr. upphaflega í lög nr. 46/1980 sé beinlínis tekið fram að umkvörtun til Vinnueftirlitsins getið snúið að þáttum á borð við einelti á vinnustað og ljóst að upplýsingar um hvort kvartað hafi verið til stofnunarinnar vegna eineltis á vinnustað, sem og gögn stofnunarinnar sem fjalla kunna um slíka umkvörtun, falli undir þagnarskylduákvæðið.

Með hliðsjón af framangreindu, og eftir að hafa kynnt mér úrskurðinn og þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar, tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að Vinnueftirlitinu sé óheimilt að veita yður slíkar upplýsingar. Tel ég því ekki tilefni til að taka úrskurðinn og ákvörðun Vinnueftirlitsins til frekari athugunar.

  

III

Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari athugunar. Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.